138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að svara síðustu spurningunni. Þetta er ekki starfsstjórn. Það hafa engar breytingar orðið nema ríkisstjórninni hefur verið falið að undirbúa ákveðið mál samkvæmt málskotsrétti sem forsetinn hefur og vísa því til þjóðarinnar til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er eina breytingin sem orðið hefur. Sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem fram mun fara mun fara fram um efni máls sem eru þau lög sem samþykkt voru fyrir áramót.

Ég tel nauðsynlegt að við, formenn stjórnar og stjórnarandstöðu, setjumst sem fyrst yfir það hvort grundvöllur sé fyrir einhverri breytingu á þessu. Ég vil ítreka það að frumskilyrði er hjá ríkisstjórninni að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. En við þurfum þá sem fyrst að ganga úr skugga um hvort einhver annar flötur og sátt sé til í þessu máli sem er erfitt að taka úr þjóðaratkvæðagreiðslu nema raunverulegur vilji sé fyrir því og þá á þeim forsendum að menn hafi trú og sannfæringu fyrir því að það skili einhverjum árangri. (Forseti hringir.) Og við þurfum þar að tala við fleiri en okkur sjálf. Það þarf að tala bæði við Breta og Hollendinga í þessu efni. (Forseti hringir.) Það sem við höfum áhyggjur af í þessu máli er (Forseti hringir.) sú efnahagsþróun og staða efnahagsmála sem við höfum áhyggjur af í framhaldinu.