138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar leiðir til þess að við færumst aftur á byrjunarreit í þessu máli væri það að sjálfsögðu stórkostlegur árangur, eins og Eva Joly, einn helsti ráðgjafi ríkisstjórnarinnar, bendir einmitt á í blöðunum í dag. En spurningin um hættuna er mjög réttmæt. Það eru ýmis tækifæri í þessu, tækifæri til að styrkja samningsstöðu Íslands, en það er líka fyrir hendi stórkostleg hætta og sú hætta er ástæða þess að við höfum nú verið að ítreka vilja okkar til að vinna með ríkisstjórninni. Hættan er sú að ríkisstjórnin leggi líf sitt undir, eins og hún er því miður að gera í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu, og megi þess vegna ekki við því að nokkuð jákvætt gerist hér næstu tvo mánuðina. Varaformaður fjárlaganefndar lýsti því raunar yfir að þetta væri starfsstjórn og hér mundi ekkert gerast fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni og þá sæju menn að það væri sko eins gott fyrir þá að að samþykkja.