138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:27]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Klukkan tifar, dagarnir líða, þjóðaratkvæðagreiðslan nálgast óðfluga. Við komumst ekki undan henni, sem ég er ekkert að mælast til, eða semjum okkur frá henni nema með breiðri sátt, það er öllum ljóst á þinginu en ekki síður við viðsemjendur okkar. Það gerist ekki nema með óformlegum viðræðum okkar á milli og óformlegum viðræðum við Breta fyrst um hvort einhverjir möguleikar séu í stöðunni. Það er jafnljóst. Við verðum að bregðast skarpt við, ræður á þinginu til þessa hafa ekki leyst neitt. Og hvað leggur hv. þingmaður til sátta? Vill hann semja um lágmarkstrygginguna? Ef við synjum þessu, hver er staðan þá? Jú, þá taka lögin frá 28. ágúst gildi með þeim fyrirvörum sem þar eru og leggja okkur brautina í viðræðunum og þar erum við líka bundin. Sér hv. þingmaður einhverjar leiðir eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna? Ef lögin eru staðfest, erum við bundin. Ef þeim er synjað, liggjum við á grundvelli laganna frá (Forseti hringir.) 28. ágúst. Hvaða leiðir sér hv. þingmaður í þessum efnum?