138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp sem lætur frekar lítið yfir sér en hefur þeim mun meira fordæmisgildi. Hv. þm. Árni Johnsen sagði fyrr í umræðunni að sjávarútvegur á Íslandi væri þjóðnýttur. Það er ekki rétt. Útgerð á Íslandi er stýrt með lögum, henni er ekki stýrt af framkvæmdarvaldinu, heldur er óskaplega mikil lagaumgerð um nánast hvert einasta smáatriði og hér er enn verið að auka á það. Til að fara að gera út trillu þurfa menn að kunna heilmikið í lögfræði og um framkvæmd laganna og þyrftu eiginlega að vera lögfræðingar. Þannig er komið fyrir þessari atvinnugrein.

Frumvarpið er eins og ég sagði í sjálfu sér tiltölulega meinlaust. Þar er verið að segja að menn geti stundað frístundaveiðar ásamt með öðrum veiðum. Frístundaveiðar eru sóknarmark. Þar mega menn sækja eins og þeir vilja innan ákveðins tíma en nú mega þeir jafnframt vera í aflamarki. Þetta hefur aldrei kunnað góðri lukku að stýra. Svo er gert ráð fyrir að það flytja megi milli ára 15% í stað 33%. Þetta þýðir bara minni sveigjanleika og að menn geti ekki tekið eins mikið mið af mörkuðum, og minni arðsemi, það liggur í hlutarins eðli. Síðan er sagt að 20% af afla sem er á landbeitta línu, þ.e. línuveiðar þar sem línan er beitt í landi, megi áfram teljast utan kvóta í staðinn fyrir 16%. Svo er það landstokkuð lína, þetta er tekið inn nýtt núna, þ.e. lína sem er stokkuð upp í landi en beitt úti á sjó, að þar skuli 15% ekki teljast til kvóta. Svo er veittur ákveðinn forgangur líka. Þetta var um þessi atriði.

Svo er verið að tala um ótrúlegt ákvæði um vinnsluskyldu á uppsjávarfiski, þ.e. ráðherra hefur heimild til að kveða í reglugerð á um það hvernig vinna eigi uppsjávarfiska, t.d. makríl, kannski sérstaklega, og gulldeplu, sem er uppsjávarfiskur. Hann getur farið að segja að gulldepla eigi að fara til manneldis. Það er áhugavert.

Þarna er sem sagt verið að bregðast við ákveðnum vanda sem ráðherrann hefur sjálfur búið til. Þegar makríllinn fór að ganga inn í íslenska fiskveiðilögsögu átti ráðuneytið að sjálfsögðu að gefa það út að veiðireynsla í þeirri fisktegund mundi byggjast á verðmæti en ekki magni. Ákaflega einföld skilaboð sem hefðu gert það að verkum að menn hefðu vandað sig við það að fá sem mest verð út úr makrílnum í stað þess að reyna að moka upp sem mestum afla, í ljósi þess sem áður hefur gerst að menn fá kvóta eða veiðiheimildir í hlutfalli við magn en ekki verðmæti sem hefur svo sem alltaf verið vandamál.

Svo er talað um veiðiskyldu, þ.e. að menn verði að veiða svo og svo mikið af fiski, og það er verið að auka hana þannig að menn skuli veiða meira af aflaheimildum sínum. Það þýðir að það verður minna til sölu utan kvóta og verðið á aflaheimildum hækkar væntanlega. Það gerir þeim útgerðum sem hafa lifað á kvóta erfiðara fyrir, þau eiga erfiðara uppdráttar. Það er dálítið merkilegt af því að ég skrifaði grein fyrir mörgum árum þar sem ég spurði af hverju útgerðin vildi ekki græða, ég reiknaði nefnilega út hve hagnaður fyrirtækjanna, útgerðarfyrirtækjanna, væru margar krónur á kíló. Ég man að Grandi var þá með mesta arðsemina á kíló veiðiheimilda eða 20 kr. á kíló. Á þeim tíma gengu veiðiheimildirnar í þorskígildi á um 100 kr. Grandi hefði því getað fimmfaldað hagnað sinn með því að leigja frá sér kvóta — ég skil ekki af hverju hann gerði það ekki eins og honum var heimilt — allt að helminginn af kvótanum, hann hefði getað leigt skipin með og hætt útgerð á helmingi af kvótanum. Ég hef ekki enn þá fengið svar við því af hverju útgerðin vildi ekki græða. En afleiðingin yrði samt sú — ef öll útgerðarfyrirtæki færu að leigja frá sér kvóta vegna þess að hagnaður þeirra er miklu minni á hvert kíló en kvótinn var seldur á — að verðið á kvótanum mundi lækka, frú forseti, sennilega á þeim tíma niður í 20 kr. því að best rekna fyrirtækið virtist skila þeim hagnaði. Það hefði hins vegar gerst að kvótinn hefði flust eitthvert annað, þ.e. þau skip sem veiða miklu hagkvæmar en önnur skip, og ég hygg að þegar grannt er skoðað séu það einmitt smábátarnir sem veiða hvað hagkvæmast það sem þeir geta veitt. Sennilega mundi kvótinn því fara til Vestfjarða og Grímseyjar og þar sem mikið er um smábáta, því að þeir veiða sennilega ódýrast, sérstaklega ef maður tekur fjármagnið inn í og kostnað við hvert pláss. Nú hef ég farið í gegnum þær breytingar sem gerðar eru hérna.

Síðan er talað um gullkarfa og djúpkarfa og þar eru menn aftur með ákveðinn vanda. Sum skip geta veitt gullkarfa en ekki djúpkarfa og þau fá samt sem áður úthlutað í djúpkarfa af því að frumvarpið er þannig og hv. sjávarútvegsnefnd hefur ekki tekið á þeim vanda. Auðvitað átti hún að taka á vandanum og segja að þeir sem hafi veiðireynslu í gullkarfa fái kvóta í gullkarfa og hinir sem hafi veiðireynslu í djúpkarfa fái kvótann í karfanum úthlutað sem kvóta í djúpkarfa. Það er svona ýmislegur vandi sem menn hafa hreinlega búið til að ég held í skilningsleysi eins og þetta sem ég nefndi með makrílinn.

Þá er það skötuselurinn, frumvarpið hefur verið kennt við hann og ekki að ósekju vegna þess að þau 3.000 tonn sem er ráðlegt að veiða í skötusel fara niður í 2.500 tonn, aflaheimild þeirra sem eiga kvóta og veiðiheimildir í skötusel er sem sagt minnkuð um 17%. Ég mundi segja að þetta væri eignaupptaka, að taka 17% af þessari eign og umfram alla aðra og úthluta þessu svo, selja það eftir reglum sem ekki eru enn þá útfærðar til einhverra annarra. Og ekki nóg með það að selja eigi 500 tonn, heldur á að selja 2.000 tonn og fara langt umfram veiðitilskipun eða ráðleggingu Hafró. Þá fer að verða dálítið athyglisvert að tala við hv. þingmenn Vinstri grænna, sem margir hverjir gefa sig út fyrir að vera umhverfissinnar og vilja að fiskveiðar séu sjálfbærar og farið sé eftir vísindalegri ráðgjöf. Þetta fólk hlýtur náttúrlega að vera núna alveg standandi hissa. Má allt í einu veiða 80% meira af skötusel en vísindamenn leggja til? Ég spyr. Og hvar eru allir umhverfissinnarnir, frú forseti? Hvar eru allir umhverfissinnarnir í Vinstri grænum, þessir grænu í Vinstri grænum? Þeir sjást ekki. Þeir ættu núna að koma og segja: Við erum eindregið á móti því að veiða svona mikið af skötusel þegar vísindamenn segja að það eigi að veiða miklu minna.

Svo er hér annað athyglisvert. Ráðuneytið má selja kílóið á 120 kr., þ.e. tonnið á 120 þúsund. Það þýðir að það ætlar að selja og fá 240 milljónir á ári fyrir þessi 2.000 tonn og menn mega kaupa allt að 5 tonn, þ.e. fyrir 600 þúsund kall. En hér kom fram fyrr í umræðunni að kvótinn er seldur á 330 kr. þannig að þeir sem eru svo heppnir að fá að kaupa þennan kvóta — það eru að hámarki 400 skip og miðað við 5 tonn á hvert skip — munu hagnast um mismuninn á því kvótaverði sem er á markaði, 330 og 120 kr., það eru 180 kr. sem þeir græða á hverju einasta kílói og það gera 900 þús. kr., frú forseti, sem þeir fá gefnar. Það er nú aldeilis gaman að fara að gefa svona peninga. Það er ráðuneytið, væntanlega ráðherra og ég ætla að biðja ráðherra — hann er reyndar ekki viðstaddur umræðuna og það er dálítið miður — ég ætla að biðja hann að minnast mín sem vinar síns, ég hef ekkert verið voðalega vondur við hann í gegnum tíðina, þegar hann fer að gefa þennan kvóta og gefa þessa peninga, 900 þús. kr.

En án gamans, frú forseti, þetta er mjög alvarlegt að það eigi að fara að úthluta svona gæðum með þessum hætti án þess að neitt sé í frumvarpinu um það hvernig fara eigi að því, hvort hann eigi að miða við skólabræður sína — ég var nú einu sinni með honum í skóla, eða hvort hann eigi að miða við frændur sína eða einhvern ákveðinn stað, Ísafjörð eða hvað það nú er, Breiðafjörð. Það er ekkert um það hvernig hann eigi að úthluta þessum kvóta. Þetta er mjög alvarlegt. Þetta frumvarp er eins og ég segi fordæmisgefandi, þetta litla frumvarp, og nú er skötuselur ekkert voðalega mikilvægur í fiskveiðum Íslendinga, það er ekki svo að allt standi og falli með honum en samt sem áður er þetta er ákveðin vísbending um það hvert menn ætla að sigla. Menn ætla að fara langt umfram fiskveiðiráðgjöf vísindamanna, það er sem sagt meiningin að brjóta regluna um sjálfbærni veiðanna og brjóta reglurnar sem umhverfisverndarsinnar hafa haldið á lofti, og þeir ætla auk þess að fara að úthluta gæðum, gefa gæði án þess að sagt sé nákvæmlega fyrir um það hvernig eigi að fara því. Ekki er það gott, en við eigum enn þá möguleika, frú forseti, að setja málið inn milli 2. og 3. umr. og þá gæti hv. nefnd tekið á þessu skarpari tökum, þannig að þau ósköp dynji ekki yfir okkur sem ég er að tala um.

Svo er annað, það er ákveðið umhverfi í gangi. Stjórnarflokkarnir hafa báðir lofað að ríkisvæða kvótakerfið á Íslandi, þeir ætla sér að taka kvótann af útgerðarmönnum og flytja hann til ríkisins, alltaf með þá hugljómun að ríkið sé sama og þjóðin. En það er reginmunur þar á, ríkið er lögpersóna og framkvæmdarvaldið fer með ríkisvaldið, og ég geri mikinn mun á þjóðinni og ríkinu. Á þessum tímapunkti núna hafa báðir stjórnarflokkarnir lagt til afskriftir, að kvótinn verði afskrifaður og hann verði ríkisvæddur, hann verði fluttur til ríkisins og svo eiga stjórnmálamennirnir að deila honum út aftur. Það verður nú aldeilis gaman. Það er þetta sem menn hafa verið að gagnrýna út um allt land.

Sett var á laggirnar sáttanefnd af þeim sama hæstv. ráðherra, sjávarútvegsráðherra, sem leggur fram þetta frumvarp. Sú nefnd er að störfum og allt í einu fær hún eins og blauta tusku framan í sig þessa meðhöndlun bæði á veiðiskyldunni og skötuselnum og það er sérstaklega hann sem kemur eins og blaut tuska framan í hana, því að það er verið að taka kvóta af ákveðnum kvótaeigendum og flytja hann yfir til annarra, ríkið ætlar að selja hann. Ef þetta er dæmi um það hvernig stjórnarflokkarnir ætla að fara með þessa hugljómun, að ríkisvæða kvótann með afskriftum, er það ekki beint gæfulegt. En það vantar alla útfærslu hjá stjórnarflokkunum um það hvernig þeir ætla að fara að því að deila út þessum kvóta aftur. Það eru mjög óljósar hugmyndir, a.m.k. hef ég ekki fengið skýra mynd af því.

Ljóst er að framsal og veiðiskylda er hlutur sem hefur verið mjög óvinsæll vegna þess að þjóðin er ósátt við kvótakerfið en aðallega eignarhaldið og þá eru menn ósáttir við það að menn megi framselja, en framsalið þýðir meiri hagræðing. Ef útgerðarmaður á tvö skip og getur veitt með einu gerir hann að sjálfsögðu bara út eitt skip og eina áhöfn, ef hann getur gert það. Í því er fólgin hagræðing. En ef um er að ræða tvo útgerðarmenn með tvö skip og ekki má leigja kvóta á milli, verða þeir að gera út sitt skip hvort með sinni áhöfn, sem er mjög óhagkvæmt og mjög óhagkvæmt fyrir þjóðina. Og því meira framsal þeim mun meiri hagræðing. Því að minna framsal, og t.d. ef ekkert framsal er sem sumir krefjast, þýðir að gera yrði út sama skipið endalaust. Ég veit ekki hvað menn ætla að gera með nýtt skip, hvort það mundi taka við kvótanum. Má framselja yfir á nýtt skip? Við sætum því uppi með skip, eins og Norðmenn hafa reyndar lent í með sitt kvótakerfi, eldgömul skip, manndrápsdalla sem eru að gera út og veiða fisk af því enginn annar má veiða. Þannig að þetta frumvarp er mjög margþætt.

Deilur um kvótakerfið hafa verið alveg frá því að það var sett á laggirnar fyrir 25 árum. Í auknum mæli er þetta að færast í deilur milli höfuðborgar og Akureyrar að einhverju leyti og þeirra staða sem gera út. Síðan er landsbyggðin, þ.e. landbúnaðarhéruðin, hlutlaus eða kannski meira í því að vera á móti eignarhaldi á kvótanum. Þrátt fyrir það að Reykjavík hafi löngum verið einn stærsti útgerðarstaðurinn á landinu og þetta sé hlutfallslega lítið af umsvifum í borginni hefur verið mikil óánægja í mínu kjördæmi — og mínum kjördæmum, ég er fulltrúi Reykjavíkur allrar — um kvótakerfið. Nú er það svo að 90% af kvótanum hafa verið keypt að mér skilst, 80–90% hafa menn keypt, þannig að menn hafa borgað mikla peninga fyrir þann kvóta sem þeir eru með. Þess vegna yrði mjög ósanngjarnt að taka þessa eign af þeim einn, tveir og þrír og það er mjög ósanngjarnt eins og menn gera ráð fyrir að taka þetta á 25 árum því að flestir hafa keypt þetta. Þeir sem fengu kvóta á sínum tíma fengu hann vegna skerðingar, vegna þess að það var verið að skerða aðgang að auðlindinni — og þá mynduðust verðmæti, því að þeir sem máttu veiða fengu verðmæti — ella hefði, ef ekkert hefði verið að gert, fiskurinn sennilega klárast og allir beðið tjón og alveg sérstaklega þjóðin.

Á þinginu 1999/2000 lagði ég fram í seinna skipti þingsályktunartillögu um að dreifa kvótanum á þjóðina. Sumir mundu segja að það sé eiginlega það sama og stjórnarflokkarnir eru að leggja til, en það er reginmunur á. Ég ætla að dreifa þessu á alla sem búsettir eru í landinu, að allir þeir sem búa í landinu hverju sinni fái veiðiheimildir, aldrei kvótann sjálfan. Þegar menn falla frá eða flytja úr landi fellur kvótinn niður og þegar menn fæðast eða flytja til landsins fá þeir kvóta. Hver yrði munurinn? Ég ætla að gera þetta á löngum tíma — og ég vildi gjarnan að útgerðarmenn kæmu inn í þá umræðu og það mætti gjarnan ræða í þessari sáttanefnd — ég mundi tala um 33 ár, 50 ár mætti gjarnan ræða, 2% afskriftir á ári, og þetta færi til þjóðarinnar og þá yrði hver og einn að reyna að selja sinn kvóta. Og ég ætlaði að gera meira, ég vildi segja að útgerð með þennan kvóta mætti gera við hann það sem hún vildi, hún mætti veiða hann, selja hann eða bara gefa þennan kvóta sem hún hefði til afskrifta. Þannig yrði hann verðmætari í höndum útgerðarinnar en núverandi kvóti þar sem menn búa við stöðugan ótta um það að ný stjórn taki við og alltaf er stöðug umræða um að taka kvótann af þeim. Ég held að útgerðarmenn ættu virkilega að skoða slíkar hugmyndir.

Hver er munurinn? Hann er sá að útgerðarmenn stæðu frammi fyrir svona 150 þúsund seljendum sem vildu selja kvóta. Eflaust mundu myndast sjóðir sem keyptu upp kvóta o.s.frv. Ég lagði til að þessu yrði úthlutað þrjú ár fram í tímann þannig að það væri alltaf til markaður með kvóta og meira að segja ef skip veiðir einn skötusel getur það bara keypt kvóta á leiðinni í land í gegnum gemsann sinn fyrir þessu eina kílói. Það mundi myndast mjög virkur kvótamarkaður af því að stór hluti þjóðarinnar mundi aldrei veiða sinn kvóta heldur bara selja hann. Um leið er maður kominn með ákveðinn grunn. Menn fengju í rauninni borgað fyrir það að búa á Íslandi og þetta mundi minnka þörfina á barnalífeyri, örorkulífeyri og ellilífeyri. Þetta mundi minnka þörfina á því að halda uppi ákveðinni grunnframfærslu á Íslandi vegna þess að menn fengju þarna sirka 2 þorskígildistonn, hver einasti Íslendingur, og verðmæti þess færi eftir því hvert yrði markaðsverð á kvóta eftir svona mikil umskipti en þegar fram liði mundi verðmætið sennilega lækka niður í kannski 100 kr. á kíló en það væru engu að síður 200.000 kr. sem menn fengju á ári, og hvort það er skattfrjálst eða skattskylt er svo aftur líka umræða. En þetta yrði mikill munur fyrir útgerðarmennina, hvort þeir horfa á 200 þúsund seljendur eða einn sem er ríkið og ríkið gerir kannski eitthvað allt annað en að selja þetta á markaði. Það er ekkert útfært hvernig það verður gert. Ég vil gjarnan að menn skoði þessar hugmyndir sem ég var með um að dreifa kvótanum á þjóðina. Ég er ekki að segja að þetta sé albesta lausnin, alls ekki, það geta verið til aðrar lausnir.

En svo er það tímasetningin, frú forseti. Tímasetningin núna eftir hrun er eiginlega sú alversta sem menn gátu valið til svona breytinga. Hvers vegna? Vegna þess að við þurfum að reyna að halda uppi eins mikilli atvinnu og hægt er. Það að fara að ráðast á útgerðirnar núna og valda ólgu og jafnvel því að menn stöðvi framkvæmdir og fjárfestingar er afskaplega slæmt. Við eigum að nýta okkur það afl sem útgerðin fær út úr lágu gengi krónunnar til að skapa enn meiri vinnu, enn meiri framleiðni og enn meiri virkni. Tímasetningin er eins slæm og hugsast getur með þessa skattlagningu og niðurskrift á kvóta og ég vil biðja menn að bíða pínulítið með það þangað til útgerðin braggast.