138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:19]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir þessa spurningu, en minni á það sem hv. þingmaður sagði, þ.e. að við værum ósammála um flest ef ekki allt í þessu. Ég get því gengið að því vísu að þingmaðurinn sé sáttur við að þarna komi 420 milljónir sem hægt verði að nota í spekúlasjón fyrir menn sem eru á engan hátt tengdir sjávarútvegi, t.d. eins og ég gæti gert.

Í öðru lagi til þess að svara spurningunni beint, vil ég byrja á því að segja að í húsi föður míns eru mörg herbergi og innan Sjálfstæðisflokksins rúmast margar skoðanir. Ég og hv. þm. Pétur Blöndal erum í sínu herberginu hvor í þessu máli. Ég er sennilega uppi í risi og hann niðri í kjallara, eða öfugt. Ég er algjörlega ósammála þingmanninum og tek á engan hátt undir hugmyndir hans eða skoðanir í þessu máli. En eins og ég segi, að í húsi föður míns eru mörg herbergi og í Sjálfstæðisflokknum rúmast margar skoðanir, eins og þetta mál ber vitni um.