138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svar hans, það var býsna skýrt.

Braski með þessar heimildir er auðvitað hægt að mæta með ýmsum hætti. Það er til að mynda auðvitað hægt að gera með veiðiskyldu eða öðrum slíkum ákvæðum. Ég vil hins vegar inna þingmanninn eftir því í síðara andsvari hvort hann sjái ekki í öðrum þáttum frumvarpsins en þeim sem lúta að skötuselsheimildunum ýmis mikilvæg framfaramál og hvort hann sé t.d. ekki algerlega sammála því eftir þá miklu sóun sem við sáum í einni tegund uppsjávarfisks á síðasta ári, sóun á auðlindinni beinlínis, að með þessu frumvarpi séu settar inn skýrar heimildir fyrir ráðherra til þess að leggja vinnsluskyldu á ef slíkt ástand kemur upp til þess að tryggja það að sem þjóð og sem hagkerfi séum við að fá — af því hv. þingmaður er nú meðfram þingmennskunni hagfræðingur, hvort það sé ekki mikilvægt að við felum ráðherranum slík stjórntæki til þess að tryggja að við hámörkum tekjurnar fyrir þjóðarbúið og fyrir efnahaginn að þessum grundvallaratvinnuvegi.