138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:07]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Til stóð að kvóti í djúpkarfa og gullkarfa skiptist bara „fifty/fifty“ eða til helminga. Skil ég hv. þingmann rétt að skiptingin gæti orðið þannig gagnvart skipum sem hafa ekki búnað til að sækja djúpkarfa að þau fengju meiri hlutann í gullkarfa og minna eða ekkert í djúpkarfa? Þarna er ákveðið vandamál uppi sem er vel hægt að leysa.

Það er eitt atriði sem hv. þingmaður kom líka inn á sem ég vil gera að umtalsefni og það er þessi VS-afli eða svokallaður Hafró-afli. Það var hárrétt ábending um 5% heimildina til að veiða umframafla og skila inn og sem fer í ákveðinn uppgjörspott hjá Hafró, að það hefur gerst að menn hafi safnað þessum 5% upp og farið svo eingöngu í að veiða meðafla þegar líður á tímabilið. Á þessu þarf að taka. Ég hef líka bent á að ég hefði viljað skoða þennan Hafró-afla betur, mjótt er mundangshófið þar í þeim efnum, en það þarf að skoða það vel og vandlega. Ég spyr hv. þingmann hvort hann deili þeim sjónarmiðum með mér að hægt sé að efla þennan þátt og þá í því skyni að tryggja það að allur meðafli komi í land, ekki bara skötuselur á grásleppunni heldur líka koli og fleiri tegundir sem koma fram í meðaflanum.