138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú vill þingmaðurinn ekki kannast við þau orð sem oft eru notuð af þessum flokkum um stórútgerðarmenn í landinu.

Almennt séð ganga fyrirtæki kaupum og sölum. Ég dreg ekki fjöður yfir að það var mikið áfall þegar þetta útgerðarfyrirtæki seldi rekstur sinn á Flateyri og kvótinn dreifðist víðar. En hann hefði þá átt að verða til þess að efla atvinnu annars staðar. Þessi kvóti sem gengur kaupum og sölum fer ekkert. (ÓÞ: Hann fór frá Flateyri.) Hann fór frá Flateyri, já, og hann var keyptur af einhverjum öðrum, hvort sem þeir voru í Bolungarvík eða á Siglufirði eða í Neskaupstað. Hann fór þá til vinnslu annars staðar. Hann skapaði atvinnu annars staðar. Þannig er þetta eða vill þingmaðurinn að við höfum kvótalágmark á hverjum einasta stað? Verður ekki hagkvæmnin að ráða í þessum rekstri eins og öðrum? (ÓÞ: Frjálshyggjan.) Já, það er mikil einföldun, virðulegi forseti, þegar þingmaðurinn kallar fram í frjálshyggjan. Ég fæ enga skynsemi í slíkan málflutning. Þetta hefur ekkert með frjálshyggju að gera. Þetta hefur með það að gera hvort við ætlum að stunda sjávarútveg byggðan á félagslegum eða markaðslegum gildum, um það snýst þetta. Við förum ekki báðar leiðirnar. Það er ekki hægt, virðulegi forseti. Sú leið er ófær.

Önnur leiðin kallar á að skattborgararnir verði að dæla fé í reksturinn, hann verður óhagkvæmur en hann sér um að viðhalda byggðunum. Það er mikill rangflutningur eins og kom fram hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrr í umræðunni að atvinnutækifæri (Forseti hringir.) hefðu tapast í sjávarútvegi út af kvótakerfinu. Það hefur bara ekkert haft með það að gera (Forseti hringir.) og fór annar þingmaður vel yfir það í umræðunni fyrr í dag.