138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég benti á var að þegar menn væru með í sama frumvarpinu ákveðið fyrir fram krónutengt gjald á skötuselskvóta, sem er sannarlega hærri en 120 krónur, hefði mér fundist mun eðlilegra að menn segðu: Við skulum hafa þetta verð á þessum aflaheimildum eða hafa þá líka ráðandi markaðsverð á skötuselsheimildunum. Það er það sem ég var að segja.

Mig langar líka að snúa þá þessu aðeins við sem hv. þingmaður segir, og talar eingöngu um LÍÚ. Það eru bara miklu fleiri hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, það eru öll sjómannafélögin, það er Landssamband smábátaeigenda, það eru allir á móti þessu ákvæði. Þá spyr ég líka: Hvers vegna eru menn að gefa einhverjum færi á sem þeir halda út af einhverju svona smámáli? Það hlýtur að vera jafnmikið smámál fyrir stjórnarþingmennina sem eru að berjast fyrir þessu eins og LÍÚ. Hvers vegna eru þá menn að fórna kannski hugsanlegri samstöðu og sátt um einhverja vinnu (Forseti hringir.) þegar málið snýr líka að okkur sem hér sitjum eins og þeim sem eru fyrir utan?