138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[19:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Af hálfu meiri hlutans ber mikið á málefnafátækt í þessu máli og við blasir það skilningsleysi sem þeir þingmenn sem hér hafa rætt málið hafa á sjávarútvegi. Ég vil hvetja þá ræðumenn að kynna sér betur um hvað grundvallaratriði í sjávarútvegsmálum og okkar aflastjórnunarkerfi fjalla um.

Hér er verið að leggja fram mál sem um er gríðarlegur ágreiningur innan sjávarútvegsins og hann hefur verið opinber allan tímann. Hv. þm. Atli Gíslason sagði í ræðu sinni áðan að mikilvægt væri að halda öllum sáttaleiðum opnum. En er það líklegt, virðulegi forseti, að hægt sé að ná einhverri sátt þegar stjórnarmeirihlutinn fer fram og talar með þeim hætti sem hann talar um þessa grundvallaratvinnugrein íslensks samfélags?

Það kom fram hjá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni að í þessu máli og þá sérstaklega varðandi skötuselsákvæðið hefði verið reynt að ná sáttum og eins og aðrir þingmenn stjórnarflokkanna sem hér hafa talað kenndi hann LÍÚ algerlega um það að ekki hefðu náðst sættir í málinu. Það er alrangt, virðulegi forseti, og það sést bara á þeim umsögnum sem eru frá öllum öðrum hagsmunaaðilum í sjávarútvegi að ágreiningurinn er mjög djúpstæður og hann fjallar um grundvallaratriði í þessu kerfi. Ég veit ekki hvort hv. þm. Helgi Hjörvar hefur verið að lesa sama frumvarp og ég, hann staglaðist á því ítrekað í ræðu sinni að um væri að ræða 600 tonn í skötusel. Það stendur í þessu frumvarpi 2.000 tonn, 2.000 lestir af skötusel fyrir hvort fiskveiðiár, það stendur í frumvarpinu. En þetta er einmitt mjög glöggt dæmi um það að menn eru farnir að draga í land, að þessir aðilar eru farnir að átta sig á hvað þeir eru villuráfandi í máli þegar þeir eru þegar farnir að draga í land. Ég held að þeir ættu að sjá sóma sinn í því, virðulegi forseti, að koma þá með breytingartillögu og færa þetta niður í 600 tonn. Um það yrði væntanlega ekki eins mikill ágreiningur vegna þess að það er ekki nema um 25% aukning frá þeirri ráðgjöf sem Hafrannsóknastofnun hefur í skötusel.

Það kom fram á fundi sjávarútvegsnefndar, þegar umsagnaraðilar og hagsmunaaðilar mættu á fund hennar, hjá einum þingmanni stjórnarflokkanna þegar þetta var gagnrýnt, hvort það ætti þá bara alltaf að fara eftir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, punktur, og ekki breyta neitt út frá því. Málið fjallar ekki um það. Það kom fram hjá hv. þingmanni sem hér talaði á undan á þessum nefndarfundi. Málið fjallar ekki um það, málið fjallar um það hversu gróflega er gengið fram núna, hversu gróflega er gengið fram og hvernig það er gert í þeirri miklu ósátt sem hér er um að ræða. Þetta mundi jafngilda því, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra hefði boðað það að geta hækkað fiskveiðiheimildir í þorski upp í 270.000 tonn. Hvaða heilvita manni dytti það í hug? Ég fullyrði það að ef slíkar geggjaðar hugmyndir hefðu komið fram hefðu þessir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi mótmælt því líka vegna þess að þeir sýna miklu, miklu meiri ábyrgð í öllum sínum málflutningi í þessu máli en hæstv. sjávarútvegsráðherra og þeir sem tala hér fyrir hönd stjórnarflokkanna.

Svo koma þessir hv. þingmenn og gagnrýna LÍÚ fyrir auglýsingarnar sem birtust í Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Þeir kenna LÍÚ um það að vera að fjármagna þær auglýsingar. Undir þessum auglýsingum eru sjávarútvegsfyrirtæki og fiskvinnslufyrirtæki um allt land, lítil, meðalstór og stór fyrirtæki, og það hefur komið fram frá forustu LÍÚ að þeir höfðu ekkert með þessar auglýsingar að gera og hefðu kosið að fara allt aðrar leiðir. En þeir sem hér nota alltaf LÍÚ sem einhverja grýlu í málflutningi sínum vilja kenna þeim um þetta líka þó að annað hafi komið fram. Er þetta líklegt til sátta, virðulegi forseti? Er þetta líklegt til þess að stjórnarflokkarnir geti leitt þetta mikilvæga mál og þessa mikilvægu atvinnugrein til sátta, um hvernig henni skuli skipað til framtíðar? Ég held ekki.

Það er nefnilega grundvallaratriði, og sú krafa á að vera hér, að við höllum ekki réttu máli. Það er gríðarlega mikilvægt að við fjöllum um þetta af fullri einurð og málefnalega og skoðum afleiðingar gerða okkar ofan í kjölinn. Sá ágreiningur sem er um þetta mál veldur miklum óróa. Og það standa hér 2.000 tonn, þó að hv. þm. Helgi Hjörvar hafi ítrekað reynt að koma að þeim 600 tonnum sem lesa má á vef sjávarútvegsráðuneytisins í dag að sé í raun verið að breyta málinu í. En hér stendur 2.000 tonn og það er það sem þetta fjallar um.

Hv. þm. Róbert Marshall spurði að því í ræðu sinni fyrr í dag hverra hagsmunir það væru að reka sjávarútveg með þeim hætti sem við gerum, hvort það væru ekki hagsmunir þjóðarinnar. Þannig er það einmitt. Hagsmunir þjóðarinnar liggja í því að við rekum öflugan vel rekinn arðsaman sjávarútveg og það verður ekki af okkur tekið að það hefur okkur Íslendingum tekist. Með því að setja kvótakerfið á á sínum tíma, með því að haga málum eins og við höfum hagað þeim, höfum við náð fram þannig hagræðingu í þessari grein að það hefur fækkað gríðarlega í fiskiskipaflotanum, mannskapnum hefur að sama skapi fækkað en við höfum náð þessari hagræðingu sem er grunnurinn að atvinnugrein sem gefur þjóðinni allra mest auðæfi og um það fjallar þetta. Hverju viljum við þá breyta? Við viljum væntanlega ekki breyta til verri vegar. Við viljum ekki breyta því að við verðum ekki lengur með þetta markaðssinnaða sjávarútvegskerfi sem við erum með yfir í félagslega rekið sjávarútvegskerfi eins og tíðkast t.d. í Evrópusambandslöndunum þar sem eru kannski, eins og í Frakklandi, tíu sinnum fleiri skip og ég veit ekki, tólf eða fjórtán sinnum fleiri sjómenn sem veiða miklu minni afla en við Íslendingar. Þar er þjóðin sátt við að greiða þetta niður með sköttum sínum. Evrópusambandið greiðir um 300 milljarða á ári með sjávarútvegi sínum. Það mundi jafngilda því að við Íslendingar værum að greiða um 100 milljarða á ári með okkar sjávarútvegi, þessari grein sem er það vel rekin og það vel skipulögð í dag að hún skilar gríðarlega af sér. Í þessu felast hagsmunir þjóðarinnar, enda er ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir að falla frá öllum fyrri hugmyndum sínum. Þeir sjá hversu geggjuð sú leið er sem þeir hafa boðað. Það er að koma fram núna í því frumvarpi sem við erum að ræða í dag þar sem farið er að tala um 600 tonn í staðinn fyrir 2.000 eins og stendur í frumvarpinu, til að selja þjóðinni það sem á þetta hlýðir að hér sé um að ræða einhverja smábreytingu, ekki þau 80% sem lagt var upp með. Menn eru farnir að draga í land og það sama má heyra úr röðum stjórnarflokkanna hvað varðar hina svokölluðu fyrningarleið. Eða sagði ekki hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar og formaður sáttanefndar sjávarútvegsráðherra, í blaðaviðtali í síðustu viku að hann mundi ekki skerða fjárhagslega hagsmuni sjávarútvegsins? Það mátti lesa úr orðum hans að fyrningarleiðin yrði ekki farin ef í henni fælist að skerða mjög fjárhagslega afkomu sjávarútvegsins. Menn eru farnir að draga í land. Sem betur fer, virðulegi forseti, eru menn farnir að sjá að sér. Þannig verður það að vera. Við verðum að fjalla um þetta af einhverri skynsemi.

Við höfum gert gríðarlega margar breytingar á þessu kerfi í gegnum tíðina. Margar hafa verið góðar, aðrar eitthvað verri og umdeildar eru þær vissulega eins og kerfið er. En þessi óróleiki skapast oft og tíðum vegna þess að menn hafa ekki heildarmyndina og þess vegna talaði ég áðan um málefnafátækt. Það skín í gegn að menn þekkja þetta ekki í grunninn og ég lái það engum sem ekki hefur verið starfandi í þessu eða fylgst með þessu um lengri tíma og hvað þá almenningi sem þekkir þetta ekki vel.

Það er talað hér um svokallaðan gjafakvóta sem útgerðir fengu í árdaga þegar kvótakerfi var komið á. Ég skoðaði og fékk fyrirlestur í síðustu viku, ásamt fleiri þingmönnum, um meðalstórt útgerðarfyrirtæki í Vestmannaeyjum. Fyrirtæki sem er búið að vera í rekstri síðan 1949, fjölskyldufyrirtæki þar sem menn hafa verið sjálfir skipstjórar á sínum einu til tveimur skipum og þetta er útgerð sem hefur gengið vel. Þessi útgerð fékk á sínum tíma 470 tonn úthlutað, hún fékk 550 tonn en það var skert niður þannig að þeir voru með um 470 tonn þegar þeir hófu veiðar í nýju kvótakerfi. Í dag eru eftir hjá þessari útgerð 34 tonn af hinum upphaflega kvóta. Á þessum árum hefur útgerðin keypt 27 aðrar útgerðir til að ná sér í kvóta, keypt 2.500 tonn af sjávarfangi til að standa undir sínum rekstri. Þar standa í dag milli 1.700 og 1.800 tonn vegna þeirra skerðinga sem hafa orðið. Breytingarnar hafa orðið mestar í því að færa úr frá stærri bátunum yfir í smábátakerfið og það má vel vera að það sé rétt, ég er ekki að gagnrýna það, vegna þess að við viljum hafa öfluga smábátaútgerð í landinu eins og hún er. En hvernig viljum við þá breyta þessu og hverju viljum við breyta? Við hljótum að þurfa að skoða það mjög náið. Viljum við fara að skerða núna aflaheimildir þeirra útgerða sem hafa keypt nánast allan sinn kvóta, hafa tekið á sig mikla skerðingu af því að aflaheimildir hafa verið skertar? Á að fara að skerða það og skilja skuldirnar eftir? Þetta er jafna sem gengur ekki upp, virðulegi forseti, og sem betur fer, ég ítreka það, virðast stjórnarflokkarnir vera farnir að átta sig að einhverju leyti á því.

Í þessu kerfi er verið að vega að þeim sem hafa keypt sér aflaheimildir. Það var hér 3.000 tonna kvóti og menn hafa keypt það. Nú á að fara að bæta við hann en það á ekki að láta þá hafa það sem höfðu keypt áður í kerfinu. Menn sem hafa keypt sér réttindi til að veiða og vinna fisk, farið að reglum, farið að lögum sem hér hafa verið sett, hafa spilað eftir fullkomnum leikreglum. Hverjir settu þær leikreglur? Það er ágætt að rifja það upp. Þessar framsalsleikreglur voru settar í tíð vinstri flokkanna á sínum tíma sem síðan hafa ekki viljað kannast við krógann og tala með þeim hætti sem hér er talað. Það er í raun alveg svívirða, virðulegi forseti, hvernig við nálgumst þessi mál. Það er ekki hægt að hafa slíkan málflutning uppi og ráðast að þeim hagsmunasamtökum sem sjómenn og útgerðarmenn hafa með þeim hætti sem hér er gert og tala niður til þeirra, vil ég segja, eins og gert er hérna. Það er ekki hægt. Þetta fólk á miklu betra skilið en slíka meðhöndlun af hálfu Alþingis.

Lýst hefur verið miklum áhyggjum af því hvaða áhrif þetta mundi hafa hjá þjóð sem sýnt hefur ábyrgð í fiskveiðistjórn sinni í gegnum árin, nýtur virðingar fyrir það um allan heim. Aðrar þjóðir leita eftir því að skoða það kerfi sem við höfum unnið eftir og eru að taka það upp vegna þess að hér hefur gengið vel. Og að koma svo fram með þessar breytingar í einni tegund sem er algerlega á skjön við það sem gert hefur verið áður og samræmist engum leikreglum, ég átta mig ekki á því. Ég velti því fyrir mér hvernig þingmenn Vinstri grænna, sem gefa sig út fyrir það að vera náttúruvænn flokkur, umhverfisvænn flokkur, ætla að greiða atkvæði með því að veita heimildir fyrir 80% veiði umfram ráðgjöf. Væru þeir sömu menn tilbúnir til að greiða atkvæði með því að þorskkvótinn yrði færður upp í 270.000 tonn? Ég get ekki séð hvernig slík meðhöndlun á náttúrunni getur samræmst skoðunum þessa flokks (Forseti hringir.) og lífsskoðunum þess fólks sem þar er.