138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[19:55]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það skiptir máli hverjir eiga bankana. Við búum hins vegar við þann veruleika að það er ekki alveg á hreinu hve réttmæt krafa þeirra í þrotabúið er. Ef maður gerir t.d. 10 millj. kr. kröfu í búið og sú er krafa réttmæt sætir hún forgangi en hversu mikið vægi hún hefur í heildarpottinn vitum við ekki fyrr en búið er að taka afstöðu til allra krafnanna. Þess vegna er það ekki á hreinu fyrr en búið er að taka afstöðu til allra krafna í þrotabúið hvert réttmæti eða styrkur krafnanna er í raun og veru og um leið hlutfall þeirra í heildarsafninu.

Ég legg áherslu á nokkur atriði: Ríkið einkavæddi ekki bankana, það ákvað að kaupa þá ekki. Við getum ekki vitað hverjir eiga bankana fyrr en búið er að taka afstöðu til krafnanna. En það liggur hins vegar alveg fyrir hvernig stjórnskipulagið er. Eignarhaldsfyrirkomulagið sem við ræddum hér mjög ítarlega í sumar kemur í veg fyrir að kröfuhafar gömlu bankanna hafi beina aðkomu að stjórn nýju bankanna. FME hefur eftirlit með öllu saman, hverjir skipa Bankasýsluna, hverja Bankasýslan skipar í bankaráð nýju bankanna o.s.frv. Þannig er farið í gegnum það að stjórnarmenn séu hæfir og um leið hæfir til þess að fara með ráðandi hlut.

Það var skýrt frá þessu öllu síðasta sumar og ætti það að vera öllum þingmönnum fullkomlega ljóst að ríkið, svo ég ítreki það nú enn og aftur vegna þess að mér finnst það mikilvægt, þetta kom fram í mörgum ræðum hér í dag: Ríkisvaldið einkavæddi ekki bankana, það ákvað að kaupa þá ekki.