138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræddum í vikunni frumvarp til laga um stjórnlagaþing og gerðum hlé á þeirri umræðu sem var hér í gangi í fyrradag til að ræða málið óformlega á vettvangi allsherjarnefndar. Ástæðan var sú að úr vinnu allsherjarnefndar komu í raun og veru fjögur ólík álit, þ.e. við vildum fara með málið í fjórar ólíkar áttir eftir því hvar í stjórnmálaflokki eða hreyfingu við sitjum. Það er hins vegar svo að hér er um að ræða svo veigamikið mál að ástæða er til þess að freista eftir fremsta megni að ná eins mikilli samstöðu um það og nokkur kostur er á. Ég hef ekki orðið var við neitt annað hjá hv. nefndarmönnum í allsherjarnefnd en mikinn vilja til þess að nálgast hver annan í þessu máli. Því leggur allsherjarnefnd í heild sinni fram breytingartillögur á málinu í miðri 2. umr. Þær eru nokkuð umfangsmiklar og eru bornar fram hér í tveimur skjölum, á þskj. 1301 og á þskj. 1296.

Veigameiri breytingin felst í ákvæði til bráðabirgða sem er frá meiri hluta allsherjarnefndar, þ.e. öllum nefndarmönnum fyrir utan hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Í því ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir tveimur nýjum málsgreinum sem eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Miða skal við að þátttakendur á þjóðfundi verði um eitt þúsund talsins og skulu þeir valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá þannig að gætt sé að eðlilegri skiptingu þátttakanda af landinu öllu og að kynjaskipting sé sem jöfnust. Á þjóðfundinum skal leitast við að kalla eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings varðandi stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og breytingar á henni og skal nefndin vinna úr upplýsingum sem safnast á þjóðfundinum og afhenda stjórnlagaþingi þegar það kemur saman. Nefndin skal jafnframt annast söfnun og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst geta stjórnlagaþingi og enn fremur leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá þegar það kemur saman.“

Hér hafa þess vegna verið tekin inn tvö atriði sem nefndarmenn í allsherjarnefnd komu sér saman um að gætu brúað það bil sem hefur verið á milli flokka og einstaklinga í þessu máli, þ.e. nú er skipuð sérstök sjö manna nefnd sem kemur með hugmyndir til stjórnlagaþingsins í kjölfar svokallaðs þjóðfundar sem hugmyndin er að verði settur saman á svipaðan hátt og þjóðfundur sem fram fór í Laugardalshöll á síðasta ári og þótti vel heppnaður. Þær hugmyndir fari síðan til stjórnlagaþingsins og það verði síðan í höndum stjórnlagaþingsins sjálfs að ákveða á hvaða tímapunkti hugmyndir frá stjórnlagaþingi verði bornar upp og bornar undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það eru nokkur mismunandi sjónarmið uppi um hvenær slík þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram en allir eða vel flestir nefndarmenn eru sammála því að hún skuli gera það. Er nefndur til sögunnar sá möguleiki að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram að lokinni umfjöllun stjórnlagaþings áður en tillögurnar koma til kasta Alþingis. Jafnframt hefur verið á það bent að hægt væri að greiða atkvæði að lokinni meðferð Alþingis í fyrra skiptið, þ.e. eftir að þing hefur verið rofið verði þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögurnar samhliða alþingiskosningum. Loks hefur verið stungið upp á því að eftir að Alþingi samþykki tillögur stjórnlagaþings eða staðfesti þær í seinna skiptið verði þær tillögur bornar undir atkvæði þjóðarinnar og taki gildi við það.

Þessi mismunandi sjónarmið eru nú í raun og veru lögð í hendurnar á stjórnlagaþinginu sjálfu. Vík ég að þeim breytingartillögum sem koma frá nefndinni allri. Þar er gert ráð fyrir því að sá tími sem stjórnlagaþingi var ætlaður til starfa sinna verði styttur. Nú er gert ráð fyrir því að starfsemi stjórnlagaþingsins verði tveir mánuðir og að þingið geti óskað eftir því að sá tími verði framlengdur um allt að tvo mánuði. Þá er bætt inn eins og áður tveimur liðum í upptalningu þeirri sem fyrir var í frumvarpinu á viðfangsefnum stjórnlagaþings. Það eru þeir liðir sem lúta að framsali ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála og umhverfismála, þ.e. breytingar sem áður höfðu verið lagðar fram, en við þær er bætt einni málsgrein m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu og einnig um frumvarp til stjórnskipunarlaga.

Þá er jafnframt núna búið að setja inn í frumvarpið að kostnaður hvers frambjóðanda vegna kosningabaráttu sinnar megi að hámarki nema tveimur millj. kr. Það er sett þak á þann kostnað.

Þetta eru svona helstu breytingarnar sem ég ætla að kynna hér. Ég geri ráð fyrir því að við tökum einhverja umræðu um málið, höldum áfram hér í 2. umr. að einhverju marki en að málið muni síðan verða kallað inn til nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. og að við munum skila nefndaráliti að loknum fundi allsherjarnefndar.

Ég vil líka nota tækifærið, virðulegur forseti, til þess að þakka kærlega samstarfsmönnum mínum í allsherjarnefnd sem hafa verið reiðubúnir til þess að funda mikið síðustu tvo sólarhringa og tilbúnir til þess að ræða málin frá nýju sjónarhorni. Ég tel það til mikillar fyrirmyndar. Það væri mikið gæfuspor fyrir Alþingi Íslendinga ef okkur tækist að afgreiða þetta mál í sæmilegri sátt. Það er skylda okkar að mínu mati að reyna að gera það eftir því sem nokkur kostur er á. Ég lít svo á að nefndarmenn í hv. allsherjarnefnd hafi á síðustu tveimur dögum sannað og vel það þann vilja sinn að svo megi vera.