138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[12:16]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að benda á það augljósa, að þetta gjald var lagt á þegar ég var u.þ.b. sex mánaða. Sá iðnaðarráðherra sem hér stendur er ekki í einhverjum sérstökum víkingi fyrir því að verja iðnaðarmálagjaldið, heldur sagði ég áðan að þetta væri eitt af þeim verkefnum sem við fengum í arf frá ríkisstjórn sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson studdi. Framkvæmdin á gjaldinu tók ekki gildi fyrr en 1993 eða 1994. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður hafi stutt ríkisstjórnina sem hafði framkvæmd gjaldtökunnar í hávegum alla tíð síðan.

Framkvæmdin var kærð og fór hún til Mannréttindadómstólsins árið 2006 og þetta er niðurstaðan sem við fáum. Hv. þingmaður getur svo sem leikið sér að því að reyna að halda því fram að ríkisstjórnin sé með einhverjum hætti að reyna að leggjast í víking með málið.

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um að þeir sem fylgjast með umræðunni séu orðnir ögn ringlaðir um hvað sé verið að fjalla um hér. Staðreynd málsins er þessi: Mannréttindadómstóllinn dæmdi ekki gjaldtökuna sjálfa heldur framkvæmd hennar. Þess vegna göngum við jafnvel lengra en dómurinn segir til um með því hreinlega að leggja það til að iðnaðarmálagjaldið verði fellt úr gildi og gjaldtöku þess hætt eftir að árið er liðið. Ástæða þess að við gerum það ekki fyrr (Forseti hringir.) er einfaldlega praktísk, gjaldtakan er þegar hafin, virðulegi forseti, fyrir síðasta ár.