138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[12:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir meðsvarið og ábendinguna sem hann kom með til mín.

Það segir á bls. 6 í greinargerð með frumvarpinu:

„Í 2. gr. er lagt til að 3. gr. verði breytt á þann veg að tekjurnar af gjaldinu renni í ríkissjóð í stað þess að þær renni til Samtaka iðnaðarins eins og nú er.“

Nú bendir hv. þingmaður mér á bráðabirgðaákvæðið sem skoða verður í þessu samhengi.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir og bendir á að málið kemur ótrúlega seint fram. Við erum að kynna okkur frumvörp sem koma frá ríkisstjórninni á handahlaupum þannig að — (Iðnrh.: Dómur féll í lok apríl.) Já, dómur féll í lok apríl en það er tiltölulega einfalt mál að verða við þeim sjónarmiðum sem þar koma fram. (Gripið fram í.) Það kemur sem sagt fram hérna að tekjurnar af gjaldinu renni í ríkissjóð en ekki til Samtaka iðnaðarins eins og nú er. Ég bendi á það að gjaldtakan er dæmd ólögmæt og mannréttindabrot hjá Mannréttindadómstól Evrópu vegna þess að viðkomandi aðili kærði sig ekki um að vera partur af samtökunum sem gjaldið rann til og var að auki ósammála þeirri pólitík sem þar var rekin. Ég benti á að í stað þess að gjaldið renni til Samtaka iðnaðarins rennur það nú samkvæmt frumvarpinu til ríkissjóðs. Það þýðir að menn þurfa að greiða gjaldið til ríkissjóðs þrátt fyrir að vera ósammála stefnu forsvarsmanna ríkisins sem allir iðnaðarmenn hljóta að vera vegna þess að ríkisstjórnin hefur brotið niður allt atvinnulíf í þessu landi og sýnir ekki nokkra tilburði til að reisa það við.