138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:04]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það er ekki á hverjum degi sem við ræðum hér á Alþingi viðbrögð ríkisstjórnar Íslands við niðurstöðu dóms sem fallið hefur hjá Mannréttindadómstól Evrópu og leiðir í ljós að íslenska ríkið hefur brotið á mannréttindum borgara sinna. Það er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt að ríkisstjórn bregðist við þegar hún fær slíkan dóm í höfuðið og leggi til breytingar á lögum til að laga það sem aflaga hefur farið og það er auðvitað það sem er hér á ferðinni, breyting á lögum um iðnaðarmálagjald vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá því í apríl þar sem dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að núverandi fyrirkomulag sem viðgengist hefur frá árinu 1975 hafi brotið í bága við 11. gr. mannréttindasáttmálans, félagafrelsisákvæðið, sem er sambærilegt ákvæði sem finna má í 74. gr. stjórnarskrár Íslands.

Ég hef lagt á það áherslu og geri enn að í kjölfar þessa dóms setjist menn niður og velti fyrir sér hvaða áhrif hann hefur í heildarsamhengi varðandi skylduaðild manna að félögum og ýmsum samtökum. Um þetta hafa verið fjörugar umræður á Alþingi og ekki síður úti í fræðasamfélaginu. Ég minnist þess þegar miklar umræður áttu sér stað milli lögfræðinga og forustumanna stéttarfélaga um það hvort þar ætti að vera skylduaðild, þ.e. hvort skylda ætti launþega til aðildar að stéttarfélögum. Á tíunda áratug síðustu aldar voru miklar umræður um skylduaðild manna að félögum og skyldugreiðslur þeirra til félaga. Ég minnist þess t.d. að Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður, sem komið hefur til umræðu hér á Alþingi af öðru tilefni, og Benedikt heitinn Davíðsson, fyrrverandi forseti ASÍ, héldu því fram að þetta væri tvennt ólíkt, skylduaðild og skyldugreiðsla. Ef ég man rétt skrifaði Lára V. Júlíusdóttir bók um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem um þetta var fjallað og reynt að færa fyrir því rök að skylduaðild og skyldugreiðsla væri tvennt ólíkt.

Ég tel að með þessum dómi hafi orðið ákveðin vatnaskil varðandi skilning manna og lagatúlkun á þessum ákvæðum og þýðingu þeirra. Ég tel að í þeim vatnaskilum hafi falist að menn hafi færst í rétta átt vegna þess að í félagafrelsinu felast einhver mikilvægustu mannréttindi sem okkur eru tryggð, bæði í stjórnarskrá okkar og öðrum, rétturinn til þess að stofna félag og rétturinn til þess að ákveða sjálfur hvort maður vill vera í því félagi og greiða til þess félagsgjald eða ekki. Nú hefur þessi dómur fallið hjá Mannréttindadómstól Evrópu sem kveður á um að það brjóti gegn 11. gr. mannréttindasáttmálans að skylda menn til að greiða til tiltekinna samtaka, sem þeir hafa ekki valið sjálfir að vera aðilar að og kæra sig ekki um að fjármagna þá pólitík sem þau samtök reka.

Þetta frumvarp er auðvitað merkilegt fyrir þessar sakir í hinu almenna samhengi hlutanna um félagafrelsi, skylduaðild að félögum, og þær meginreglur sem 11. gr. mannréttindasáttmálans og 74. gr. stjórnarskrárinnar fjalla um, (Forseti hringir.) og því er eðlilegt að menn taki það til rækilegrar umræðu hér á þinginu. (Utanrrh.: Hæstv. utanríkisráðherra.) (Forseti hringir.) Ég vil benda hæstv. forseta á það að nokkuð hefur skort á að hæstv. iðnaðarráðherra sé við umræðuna. (Forseti hringir.)