138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður flutti ágæta ræðu um mannréttindi og ég hefði búist við því af fyrri reynslu að hér yrði fjölmennt í salnum og margir tækju til máls um mannréttindi en það virðist vera dálítill skortur á því. Það virðist bara vera Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur áhuga á mannréttindum, það virðist vera þannig, og Framsóknarflokkurinn. (Utanrrh.: Flokksforustan …) Samfylkingin hefur enn þá ekki rætt um þetta nema hæstv. ráðherra sem skautaði mjög létt í gegn og hefur ekki verið viðstaddur umræðu um sitt eigið mál sem ég er að gagnrýna.

Nú eru fjöldamörg gjöld innheimt með sama hætti, búnaðargjald, fiskiræktargjald, gjald til STEF og orlofsheimilagjald, félagsheimilagjald og fræðslugjald, sem við samþykktum reyndar í gær, af þessari sömu hæstv. mannréttindaelskandi ríkisstjórn. Allt er þetta niðurnjörvað kerfi sem aðilar vinnumarkaðarins hafa meira og minna byggt upp og njörvað sjálfa sig inn í. Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að hann kom ekkert inn á það, hvernig væri hægt að stofna nýtt stéttarfélag. Segjum að eitthvert láglaunastarfsfólk á leikskóla væri orðið langþreytt á kjörum sínum, langþreytt á þessu gervistéttarfélagi, opinbera stéttarfélagi sem berst fyrir kjörum þess, og mundi vilja rísa upp og stofna stéttarfélag eins og var í árdaga stéttarfélagabaráttunnar. Hvernig gæti það það? Mundi ríkið yfirleitt semja við það?

Í fyrsta lagi yrðu þeir að greiða áfram til gamla stéttarfélagsins. (Forseti hringir.) Gætu þeir yfirleitt samið?