138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að það er viðtekin hefð að ráðherra sem flytur mál sé við umræðuna. Eins og hv. þingmaður sagði var hæstv. iðnaðarráðherra hér fram eftir umræðunni. Hún þurfti að bregða sér frá af sérstökum ástæðum en hennar er von innan tíðar, að því er ég best veit, þannig að hv. þingmaður getur þess vegna haldið áfram að halda sína lærðu fyrirlestra yfir þinginu. Ég mun flytja hæstv. iðnaðarráðherra kjarnann úr þeim skilaboðum sem er að finna í máli hv. þingmanns. Eins og hv. þingmaður veit hef ég langa reynslu af því að túlka mál hans þannig að sameiginlega ætti okkur ekki að verða skotaskuld úr því að koma þessu öllu saman í réttar hendur.

Ég ítreka bara að það eru sérstakar ástæður fyrir því að hæstv. ráðherra vék sér frá, en von er á henni innan tíðar.