138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þegar fram fer 2. og 3. umr. og menn kalla ráðherra til þings hef ég alltaf bent á að í þeim umræðum fjöllum við um niðurstöðu nefndar þingsins. Þá er ekkert endilega nauðsyn að hafa ráðherrann þó að oft sé gott að hafa höfundinn eða ábyrgðarmanninn til fyrirsvars. En við 1. umr. eiga flutningsmenn að vera viðstaddir umræðuna. Ef flutningsmaður getur ekki verið viðstaddur finnst mér alveg sjálfsagt að forseti taki önnur mál fram fyrir og fresti málinu um stund.

Ég vildi benda hæstv. forseta á nokkuð ámælisvert. Við ræðum hér mannréttindabrot sem hefur viðgengist af hálfu Alþingis því að þessi lög eru sögð brjóta mannréttindi. Mér finnst að þegar bent er á önnur mál í þessu sambandi eigi menn að taka það töluvert alvarlega.