138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að menn eiga að taka það alvarlega ef í ljós kemur að lög sem sett hafa verið kunni hugsanlega að hafa farið á svig við það sem leyfilegt er. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður hefur talað um það árum saman og haft rétt fyrir sér. En hv. þingmaður veit náttúrlega hverjir það voru sem settu þessi lög. Ég man ekki betur en að það hafi verið hans eigin flokkur sem daufheyrðist við áminningum og umvöndunum hv. þingmanns.

Ég ætla þó ekki að gera það að umræðuefni heldur hitt, eins og hv. þingmaður sagði, að þegar menn ræða mál við 1. umr. er fyrst og fremst verið að leita upplýsinga og skýringa á einstökum atriðum. Eftir atvikum er það sá hæstv. ráðherra sem flytur málið sem veitir þær. Ég hef sagt frá því undir liðnum um fundarstjórn forseta að það er von á hæstv. iðnaðarráðherra. Hún sinnti þeirri skyldu að fylgja málinu úr hlaði og svara fyrirspurnum fram eftir degi. Af sérstökum ástæðum þurfti hún að bregða sér frá. Hún er á leið í hús, ég hef gengið úr skugga um það. Ég bið því hv. þingmenn um að hafa biðlund og halda áfram að reifa málið af dæmafárri þekkingu sinni.