138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því innilega að hæstv. iðnaðarráðherra sé komin á svæðið og það er rétt að hæstv. ráðherra var saknað hér áðan. Að sjálfsögðu er óskað eftir því að ráðherra sé viðstaddur þegar menn flytja ræður sínar. Ég fagna því að ráðherra er komin og hef fullan skilning á því ef hún hefur þurft að sinna skyldustörfum annars staðar og þá þarf að fresta umræðum vitanlega eða gera aðrar ráðstafanir.

Kannski hæstv. ráðherra geti komið inn á það í ræðu sinni í dag, lokaræðu væntanlega sem kveðið er á um hér í lögunum, að það eigi að innheimta þetta gjald vegna ársins 2009 í stað þess að hætta að innheimta það strax. Í stað þess að það renni til Samtaka iðnaðarins þá renna þessar 420 milljónir í ríkissjóð. Auðvitað er þetta í rauninni sami peningurinn. Þeir aðilar sem greiða iðnaðarmálagjald hefðu hvort sem er þurft að greiða þessar 420 milljónir, þær hefðu farið til Samtaka iðnaðarins og í þau verkefni en í staðinn fara þær núna í ríkissjóð. Hér er rætt um að þessir fjármunir eigi að fara til menntunar og nýsköpunar í iðnaði eftir því sem nánar er kveðið á um í fjárlögum. Mig langar því að velta því upp enn og aftur hvort hér sé um viðbót að ræða við þann fjárhagsramma sem hefur verið í þessum málaflokkum í fjárlögum eða hvort þessar 420 milljónir komi einfaldlega í staðinn fyrir þá fjármuni sem ríkið ella hefði sett í þessi mál. Ef þetta er viðbót, líkt og við hefðum ætlað Samtökum iðnaðarins að nota þessa fjármuni, ber að fagna því að sjálfsögðu að það eigi að nýta þessa peninga til þess að auka við verkefni í menntun og nýsköpun. Það er sjálfsagt seint of mikið af fjármunum sett í menntun og nýsköpun til að efla og auka áhuga fólks á iðnaði. Hættan sem við okkur blasir í efnahagsástandi eins og þessu gæti verið sú að fólk hyrfi frá því að mennta sig í þeim greinum sem ganga kannski hvað verst. Hins vegar skilst mér að svo sé ekki heldur sé aukinn áhugi á iðnmenntun og ég held að rétt sé að fylgja því eftir.

Iðnaðarmálagjald er hér lagt niður vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu. Því má velta því upp hvers vegna ekki sé brugðist við strax. Eflaust eru eðlilegar skýringar á því og það er þá ágætt að fá þær: Af hverju er ekki brugðist við strax og lögin einfaldlega afnumin?

Annað sem vekur athygli er orðalagið í 3. gr., með leyfi forseta:

„Gjald samkvæmt lögum þessum skal síðast lagt á vegna rekstrarársins 2009.“

Ef ég misskil ekki þetta lagafrumvarp er ekki verið að tala um að lögin falli síðan úr gildi heldur séu áfram í gildi. Það er að sjálfsögðu hægt að koma með frumvarp þar sem þau eru felld úr gildi ef mönnum sýnist svo.

Málið mun að sjálfsögðu fara til iðnaðarnefndar og er ljóst að ef afgreiða á málið nú þarf iðnaðarnefnd — ég veit að hún getur það alveg — að hafa hraðar hendur. Hins vegar má líka velta upp hvort það sé einhver ástæða til þess þar sem ekki á að afnema lögin heldur er verið að tala um hvernig eigi að breyta þeim til að laga þau að þessum dómi.

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég nefndi hér áðan varðandi skattana, þ.e. hvort þetta sé í raun skattur sem fer í ríkissjóð þar sem gjaldið rann áður til Samtaka iðnaðarins. Það kunna hugsanlega að koma svör við þessu á eftir og hlusta ég að sjálfsögðu af athygli á þau.