138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

viðbrögð við hæstaréttardómi um gengistryggð lán.

[10:12]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek fram að ég er fylgjandi því að hér fái efnislega meðferð frumvarp sem kveður á um flýtimeðferð í þessum málum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að hér sé ekki um mikla óvissu að ræða. Ég held að allir sem geri sér far um að lesa hæstaréttardóminn sjái að niðurstaða hans er skýr, efni samninganna gilda þó að ákvæði um gengistryggingu hafi verið dæmt ólögmætt. Það þýðir með öðrum orðum að þeir vextir sem þar eru tilgreindir eiga að gilda. Ég vona að við þingmenn getum sleppt því að bregða fæti fyrir þá atburðarás sem nú á sér stað. Þetta væri það eina sem ég mundi samþykkja. (Forseti hringir.) Annars eiga dómurinn og lög og reglur í landinu að gilda.