138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:49]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Það er heldur kaldranalegt haust sem bíður okkar Íslendinga með ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, í stafni. Í 19 mánuði segist þessi ríkisstjórn hafa erfiðað, en fátt situr eftir. Það vantaði ekki yfirlýsingarnar þegar hún settist að völdum. Listi var gerður og heit voru strengd. Þá átti að klára 48 mál á 100 dögum. Nú er ríkisstjórnin 481 dags gömul og listinn er enn ókláraður. Skjaldborgin um heimilin varð að umsátri og loforð um aðgerðir í atvinnumálum, þrátt fyrir orð hæstv. iðnaðarráðherra áðan, eru að engu orðin. Þessi svokallaða velferðarstjórn er rúin trausti. Stuðningur við hana er lítið meiri en stuðningur var við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tveimur mánuðum eftir hrun og þá var talað um umboðslausa ríkisstjórn. Þá lá á að boða til kosninga. En það hefur margt breyst frá þeim tíma. Þá mátti hæstv. fjármálaráðherra ekki heyra minnst á AGS eða ESB eða greiðslur af Icesave. Allt það og fleira til hafa hann og flokkur hans kokgleypt fyrir sæti við ríkisstjórnarborðið. Hæstv. dóms-, mannréttinda- og samgönguráðherra snýr nú aftur í ríkisstjórn 11 mánuðum eftir að honum var ekki til setunnar boðið vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í Icesave. Hvað hefur breyst í stefnu ríkisstjórnarinnar á þeim tíma? Sá frostavetur sem spáð var hefur ekki ræst. Að öðru leyti heldur ríkisstjórnin sig fast við þá stefnu sem hún lagði í upphafi af stað með. Það er ekki henni að þakka að stefnubreyting varð í samningaviðræðum um Icesave.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur enga iðrun sýnt yfir því að hafa viljað steypa öllu á bólakaf í skuldafen með vonlausum og ónýtum samningum. Það er ekki það sem liðið er sem skiptir máli, við skulum einbeita okkur að því sem fram undan er. Hvað þurfum við að gera til að komast upp úr þeim öldudal sem við erum föst í? Hversu lengi ætlum við að húka á botninum? Þessi ríkisstjórn vill ekki spyrja slíkra spurninga. Þvert á móti þverskallast hún við að horfast í augu við staðreyndir. Hún er því miður farin að hanga á völdunum eins og hundur á roði. Um það eru breytingar á ríkisstjórn í morgun skýrt dæmi. Þessi ríkisstjórn mun ekki leysa nein mál. Hún kann bara að binda hnúta og þvælast fyrir.

Við Íslendingar þurfum að spyrja okkur núna hvernig við viljum hafa hlutina; í ágreiningi, skapa óróa, ala á tortryggni – eða viljum við leysa málin, sameinast um það sem skiptir máli og komast áfram inn í framtíðina. Við vitum vel að menntuð þjóð er auðug þjóð. Við vitum líka að það er á þeim grunni sem við sköpum hagsæld og vöxt til framtíðar. Við skulum gæta að því. Til þess að geta gert það verðum við að takast á við það sem máli skiptir. Álögur á fólk og fyrirtæki hafa hækkað. Fjölskyldur geta ekki borgað meira. Það eru ekki fleiri krónur í buddunni. Kjarasamningar eru að losna. Ófriður er fram undan á vinnumarkaði. Litlar líkur eru til þess að aðilar vinnumarkaðarins láti bjóða sér aftur svikin loforð eins og gert var sumarið 2009 með stöðugleikasáttmálanum. Hér munu skapast verulegir erfiðleikar í haust nema menn snúi sér að því sem máli skiptir, að fara af alefli í það að auka súrefni í atvinnulífinu með stórauknum framkvæmdum og slætti í hagkerfinu, og um leið hlúa að sprotum til framtíðar.

Til þess að auka tekjur ríkissjóðs þarf að skapa frjósaman jarðveg svo að fyrirtæki geti fjölgað störfum. Ekki um 500 störf, ekki 1.000 störf, ekki 2.000 störf, heldur um mörg þúsund störf. Þau störf geta aðeins orðið til á almennum vinnumarkaði. Til að standa undir menntun og velferð er nauðsynlegt að hafa virkt og öflugt atvinnulíf.

Hæstv. forseti. Atvinnuleysistölur eru ískyggilegar en enn ískyggilegri eru tölurnar um hve störfum hefur fækkað á undanförnum missirum. Við höfum tapað 20.000 störfum. Þau verðum við að skapa á ný. Í þessari erfiðu stöðu hafa stjórnvöld samt tækifæri. Það er nefnilega jafnan svo að við erfiðustu aðstæður má sjá tækifæri til að rétta úr kútnum. Tækifærið felst í því að ríkisstjórnin beiti sér af alefli í atvinnumálum og það strax, að hún horfist í augu við að við þurfum að bretta upp ermarnar og spýta í lófana. Við eigum að fara að vinna. Við eigum orku, við eigum fisk, við eigum hugvit. Þannig vinnum við okkur saman út úr vandanum.