138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:14]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Þegar hin svokallaða norræna velferðarstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum í febrúar á síðasta ári höfðu tæplega 300 Íslendingar verið atvinnulausir í eitt ár eða lengur. Núna, 19 mánuðum síðar, hefur þeim fjölgað fimmtánfalt. Það eru 15 sinnum fleiri sem hafa verið án atvinnu í eitt ár eða lengur frá því að ríkisstjórnin tók við völdum.

4.500 Íslendingar sem hafa ekki haft vinnu í eitt ár hafa lítinn skilning á atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar. Þær þúsundir Íslendinga sem hafa flúið land í leit að betra lífi skilja ekki og sáu aldrei skjaldborgina sem hæstv. forsætisráðherra lofaði. Upp undir 14.000 vinnufúsar hendur, sem eru án atvinnu, hafa ekki séð atvinnustefnuna og horfa í forundran á stefnu ríkisstjórnarinnar sem birtist eingöngu í því að komið er í veg fyrir að auðlindir séu nýttar og ný tækifæri sköpuð.

Þeir sem nú glíma við atvinnuleysi, mesta bölvald allra þjóða, og tugþúsundir Íslendinga sem berjast við að halda íbúðunum sínum, sjá aðeins eina birtingarmynd á atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar: Að tryggja réttum einstaklingum góð embætti á vegum hins opinbera. Jafnvel það virðist ganga illa hjá hæstv. ráðherrum. Það eina sem gengur vel hjá sundurlausri ríkisstjórn er að koma í veg fyrir að landið rísi.

Íslendingar eru ekki að biðja um mikið. Þeir biðja aðeins um að sanngirni og jafnræði ríki þegar kemur að skuldum heimila og fyrirtækja. Þeir vilja að stjórnvöld þvælist ekki fyrir þegar kemur að uppbyggingu fyrirtækja. Íslendingar vilja frelsi til að nýta þau tækifæri sem gefast. Þeir ætlast til þess að ríkisstjórnin greiði götu einstaklinga og fyrirtækja en leggi ekki stöðugt stein í götu þeirra.

Á sama tíma og fréttir berast af því að skuldir stórfyrirtækja eru færðar niður sitja þúsundir landsmanna í fátæktargildru og skuldafeni. Skjaldborgin hefur reynst skjaldborg utan um stórskuldug stórfyrirtæki og eignarhaldsfélög, allt á kostnað almennings og lífvænlegra fyrirtækja sem hafa verið rekin af skynsemi og fyrirhyggju á undanförnum árum.

Er furða að aðilar vinnumarkaðarins hafi gefist upp á velferðarstjórninni? Samtök atvinnulífsins eru þegar búin að fá nóg. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að engu sé líkara en að ráðherrar beiti sér stöðugt gegn öllum fjárfestingaráformum og þvælist fyrir til að koma í veg fyrir verkefni til uppbyggingar. Hann segir að það sé lítill vilji til samstarfs við slíka ríkisstjórn.

Ágúst Einarsson, fyrrverandi þingmaður og einn nánasti samverkamaður hæstv. forsætisráðherra í mörg, mörg ár og hennar helsti ráðgjafi, gefur ríkisstjórninni ekki háa einkunn. Í viðtali við Viðskiptablaðið í sumar sagði hann ríkisstjórnina dauða. (Gripið fram í.) — Ég heyri að hæstv. utanríkisráðherra er óvenjuórólegur við þessar umræður enda hefur hann greinilega fengið það verkefni, ásamt Árna Páli Árnasyni, hæstv. viðskiptaráðherra, að hafa sérstök bönd á Jóni Bjarnasyni sem á kannski að róa ríkisstjórnina.

Ágúst Einarsson segir:

„Stjórnin er því miður sundurlaus og ráðherrar rífast opinberlega. (Gripið fram í.) Skilyrði lýðræðisins er að myndi menn meirihlutastjórnir verða menn að hafa meiri hluta og það hefur þessi stjórn ekki í mjög mörgum málum (Gripið fram í.) og þar á meðal í málum sem samið var um í stjórnarsáttmála.“ Og hann telur að ríkisstjórnin eigi að víkja, hún sé dauð. Þetta er ekki dómur sem sjálfstæðismenn fella yfir ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra. Nei, þetta er gamall samherji og helsti ráðgjafi um margra ára skeið.

Frú forseti. Auðvitað er ekki hægt að tala um atvinnu- og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Við skulum bara ræða um hlutina eins og þeir eru. Stefna ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er helstefna. Hún er helstefna gegn fyrirtækjum, gegn millistéttinni, gegn heimilum í landinu. Hún er helstefna gegn skuldugum fyrirtækjum og heimilum. Hún er fyrst og fremst helstefna gegn allri skynsemi. (Forseti hringir.)

Við öll í þessum sal sem hlustuðum á forsætisráðherra eigum þó eitt sameiginlegt og það sameinar stjórn og stjórnarandstöðu: Við vitum (Forseti hringir.) ekki hver stefna ríkisstjórnarinnar er.