138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er þakkarvert, sannarlega þakkarvert að hv. þm. Pétur Blöndal skuli benda á það að einhverjir voru tilbúnir til þess að gangast við gerðum sínum.

Hins vegar er sorglegt og kemur ítrekað fram í skýrslum rannsóknarnefndar og þingmannanefndar hversu sjaldgæfar slíkar yfirlýsingar voru. Menn tóku yfirleitt alltaf þannig til máls, þegar þeir voru að gangast við einhverju í sambandi við hrunið eða í sambandi við fjármálakreppuna, að ábyrgðaryfirlýsingar voru meira og minna skilyrtar, þ.e. ef, hefði, kannski, sjálfsagt mætti ætla, líklega gæti verið o.s.frv.

Hv. þm. Pétur Blöndal á þakkir skildar fyrir afdráttarlausa yfirlýsingu um það að hann beri ábyrgð á einhverjum hlutum sem þarna eru. Það mættu fleiri feta í þau fótspor.