138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:16]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil líkt og aðrir þakka þingmannanefndinni fyrir það mikilvæga og krefjandi starf sem hún hefur unnið og fyrir þær góðu tillögur sem fram koma í skýrslunni. Ég vil sérstaklega leyfa mér að nefna þingsályktunartillöguna um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem fram kemur á bls. 15 en þar er að finna sameiginlegar tillögur allra nefndarmanna sem þverpólitísk sátt hefur náðst um, m.a. að Alþingi álykti að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára og að mikilvægt sé að hún verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni.

Við verðum að draga lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndarinnar og vinna sameiginlega að þeim tillögum sem fram koma í skýrslu þingmannanefndarinnar um leiðir til að bæta starfshætti stjórnsýslunnar, styrkja stöðu Alþingis og auka gagnsæi í vinnubrögðum. Listinn er langur og eins og einhver komst að orði er engu líkara en við þurfum að byrja á byrjunarreit, koma okkur aftur á Þingvöll og treysta vor heit. Verkefnið er krefjandi en tækifærin eru líka mikil.

Meðal þess sem lagt er til og fram hefur komið í ræðum á Alþingi er að mikilvægt sé að taka starfshætti Alþingis til endurskoðunar og að mikilvægt sé að styrkja sjálfstæði og grundvallarhlutverk Alþingis. Oft hefur verið rætt um að löggjafinn sé undir þrýstingi framkvæmdarvaldsins og jafnvel hefur verið tekið svo til orða í almennri umræðu að þingið sé stimpilpúði framkvæmdarvaldsins. Ég er sannfærð um að þessi gagnrýni átti miklu frekar við á þeim tímum þegar jafnvel afdrifaríkar ákvarðanir voru teknar án nokkurs umboðs þingsins líkt og stuðningur við innrásina í Írak á sínum tíma og jafnvel þá keðju ákvarðana sem leiddi til virkjunar við Kárahnjúka.

Við búum við þingræðislegt fyrirkomulag þar sem Alþingi á síðasta orðið að því er varðar löggjöf, og framkvæmdarvaldið eða ríkisstjórnin situr í umboði þess. Eigi að síður er brýnt að vera þess meðvitaður að Alþingi hefur falið framkvæmdarvaldinu tiltekin verkefni og það umboð er bæði formlegt og pólitískt og snýst fyrst og fremst um þann lýðræðislega skilning að farið sé með umboð frá almenningi og kjósendum í gegnum löggjafarvaldið og þaðan til framkvæmdarvaldsins.

Ég vil því í þessu samhengi leyfa mér að nefna stuttlega áhrif hagsmunaaðila á bæði framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið þegar stórar ákvarðanir eru teknar. Þar er oft um að ræða hagsmunaaðila eða hagsmunaöfl sem beita ýmsum aðferðum til að hafa áhrif á stefnumótun stjórnvalda og áherslur á jafnvel lagasetningu. Ég vil í þessu sambandi vísa til bls. 179 í skýrslu þingmannanefndarinnar þar sem fjallað er um samskipti stjórnmála og efnahagslífs en þar segir, með leyfi forseta:

„Vinnuhópurinn vekur athygli á því að með alþjóðavæðingu viðskiptalífsins fari stjórnvöld í auknum mæli að líta á hlutverk sitt sem þjónustu við mikilvægar atvinnugreinar frekar en að veita þeim aðhald. Á sama tíma sækist viðskiptalífið æ meira eftir afskiptum af stefnumótun og lagasetningu. Tvenn hagsmunasamtök, Viðskiptaráð og Samtök fjármálafyrirtækja, reyndu eftir mætti að hafa áhrif á lagasetningu um fjármálastarfsemi. Lögðu þau áherslu á að lagaumgjörð viðskiptalífsins væri ekki íþyngjandi, stjórnsýsla væri einföld og að skattar lækkuðu. Bent er á að fín lína gæti verið milli þess að búa atvinnugreinum hagstæð skilyrði og þess að þjónusta viðskiptageirann.“

Kröfur um að lagaumgjörð viðskiptalífsins sé ekki íþyngjandi, að stjórnsýslan sé einföld og krafan um skattalækkun hljómar nokkuð kunnuglega þótt ekki komi hún frá fjármálamarkaðnum í þetta sinn. Það eru önnur hagsmunaöfl sem þrýsta á stjórnvöld nú um stundir, saka þau um að vera að þvælast fyrir þegar leikreglur stjórnsýslunnar eru viðhafðar um töku ákvarðana, saka stjórnvöld um seinagang þegar aflað er gagna sem eru nauðsynleg til grundvallar ákvarðanatöku, ásaka stjórnvöld um að bregða fæti fyrir framkvæmdir ef ráðherra leyfir sér að spyrja spurninga eða afla frekari upplýsinga í ljósi eftirlitsheimilda sinna.

Já, þó svo að karlakór fjármálamarkaðarins hafi að hluta stigið út af sviðinu þá stendur hinn hluti þess kórs eftir. Ég segi karlakór því að lítið fer fyrir kvenröddum í þeim kór sem reynir að hafa áhrif á stefnumótun stjórnvalda og lagasetningu löggjafans. Hér er alls ekki um að ræða gagnrýni sem lýtur að óeðlilegum eða eftir atvikum of miklum þrýstingi hagsmunaaðila heldur ekki síður hugleiðingu um það að hve miklu leyti slíkur þrýstingur getur bjagað það lýðræðislega umboð sem hér hefur verið nefnt. Aðilar sem ekki hafa hlotið kosningu í almennum kosningum fara þannig hugsanlega með of mikil áhrif of þröngra hagsmuna.

Ég vil í þessu sambandi sérstaklega staldra við og vekja athygli á þeim þætti í skýrslu þingmannanefndarinnar sem hefst á bls. 209 og lýtur að greiningu á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá kynjafræðilegu sjónarhorni. Sá kafli skýrslunnar ítrekar fyrst og fremst að við búum við jafnréttislöggjöf sem okkur ber að halda í heiðri sem og sá áskilnaður, sem þar kemur fram, að samþætta kynjasjónarmið allri ákvarðanatöku. Jafnréttislöggjöfin var í fullu gildi og hún var í fullu gildi á árunum fyrir hrun.

Í kynjagreiningu þeirra Þorgerðar Einarsdóttur og Gyðu Margrétar Pétursdóttur kemur fram að hagstjórn síðustu ára, sem að mati rannsóknarnefndar Alþingis átti þátt í að ýkja hið efnahagslega ójafnvægi sem leiddi til hrunsins, hafði beina og óbeina kynjavídd. Stóriðjuverkefni, skattalækkanir og húsnæðismál höfðu kynbundnar afleiðingar sem almennt komu körlum betur en konum. Fjármálakerfið á árunum fyrir hrun, sem stjórnvöld litu á sem nýja atvinnugrein, var karllægt og launamunur kynjanna var hrópandi. Kynjaskipting starfa í fjármálageiranum var mikil og í launakönnun Samtaka starfsfólks í fjármálageiranum í maí 2008 kom fram að meiri hluti karla eða 76% voru sérfræðingar, millistjórnendur og stjórnendur og af þeim voru rúmlega 10% stjórnendur. Á sama tíma voru einungis 3% kvenna stjórnendur en rúmlega 39% voru þjónustufulltrúar, ráðgjafar eða gjaldkerar. Almennur launamunur var mikill í bönkunum og voru þess dæmi að laun forstjóra voru tæplega 159-föld laun meðalstarfsmanns í banka. Í sömu launakönnun kom fram að konur voru með lengri starfsaldur en karlar en engu að síður voru karlar með 14,4% hærri heildarlaun á klukkustund en konur.

Konur voru hverfandi fáar í stjórnum fjármálafyrirtækja fyrir hrun. Eiginleikar sem voru taldir eftirsóknarverðir í fjármálageiranum voru karllægir, sóst var eftir ungum og reynslulitlum körlum auk þess sem áhættusækni var eftirsóknarverð. Eiginleikum eins og ábyrgð, reynslu og þekkingu var ýtt til hliðar fyrir reynslulausa stráka sem enn þá voru, með orðum Andra Snæs Magnússonar, og með leyfi forseta: „með fósturfituna í hárinu með 2 millj. í laun á mánuði.“

Grein eftir Andra birtist í Fréttablaðinu á laugardag undir fyrirsögninni „Í landi hinna klikkuðu karlmanna“.

Í skýrslunni er vísað til þeirrar orðræðu sem forseti Íslands viðhafði í störfum sínum í þágu viðskiptalífsins. Orðræða forsetans var karlmiðuð. Vísað var til sjómanna og bænda, athafnamanna, frumkvöðulsvilja o.s.frv. Allt eiginleikar sem hafa verið tengdir sérstaklega við karlmennsku. Eftirfarandi eru orð og hugtök sem voru valin úr erindi forsetans hjá Sagnfræðingafélaginu í janúar 2006 og er þeim í skýrslunni ætlað að gefa innsýn í andblæ þessarar orðræðu forseta Íslands, með leyfi forseta þingsins:

„Útrásarandi, sækja frægð og frama um langan veg, þjóðarvitund, siðmenning, í fremstu röð, nýsköpun, frumkvæði, hæfni og hugvit, snerpa og knáleikur hins smáa, íslenskir athafnamenn bera sigurorð af öðrum, vinnusemi, árangur, áhætta, þora þegar aðrir hika, laus við skrifræðisbákn, íslenskur athafnastíll, skapa iðandi keðju bandamanna í ákvörðunum, stjórnandinn sjálfur er í fremstu röð líkt og skipstjóri í brúnni, fyrirtækin öðlast svipmót frumkvöðlanna, ábyrgð og forusta, landnámið, tími víkinganna, verðskuldaður heiður, leggja á hafið, nema lönd, virðing og sómi, athafnamenn, arftakar hefðar með rætur í upphafi Íslandsbyggðar, tengsl við forna tíma, skáldagáfa, sköpunargleði.“

Orðræða forseta Íslands er hlaðin karllægu tungutaki og táknmyndum. Hlutverk hans í að móta ímynd útrásarinnar er ekki umdeild. Þannig var sjálfsskilningur bankamanna einnig. Í áformum þeirra um fjárfestingar var talað um að leggja heiminn að fótum sér. Umhverfið átti að vera sem frjálsast, það mátti ekki hefta hugmyndaflugið. Viðskiptaráð hvatti til þess að Ísland yrði frjálsasta þjóð heims árið 2015 og varaði í því samhengi við hinni lamandi hönd ríkisvaldsins. Íslenska leiðin samkvæmt viðhorfi útlendinga var bara að fara af stað, láta hlutina ráðast án þess að hafa neina strategíu, undirbúningurinn þessi venjulegi íslenski undirbúningur, þetta reddast, förum í eina átt og ef það gengur ekki reynum við eitthvað annað.

Frú forseti. Voru kynjasjónarmið höfð að leiðarljósi við einhver af þeim ákvörðunum sem leiddu til hrunsins? Er líklegt að sömu ákvarðanir hefðu verið teknar ef afstaða til þeirra hefði verið tekin með kynjasjónarmið í huga? Tökum sem dæmi þá atvinnustefnu sem stjórnvöld lögðu áherslu á á árunum fyrir hrun. Mikil áhersla var lögð á stóriðju og virkjanir og ber þar hæst framkvæmdirnar við Kárahnjúka sem voru einhverjar mestu framkvæmdir Íslandssögunnar. Stóriðjustefna 2004–2007 fól í sér þreföldun álframleiðslu með tilheyrandi virkjunarframkvæmdum. Stóriðjustefnan þýddi störf fyrir karla. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Stóriðja sem atvinnustefna hefur kynjavídd í margvíslegum skilningi. Störfin eru dæmigerð karlastörf og karlar eru í yfirgnæfandi meiri hluta. Eitt megineinkenni byggðaröskunar er að fleiri konur yfirgefa landsbyggðina en karlar, m.a. vegna skorts á atvinnutækifærum við hæfi. Meginrökin fyrir framkvæmdinni voru að afla atvinnutækifæra og sporna gegn byggðaröskun. Hæpið væri að halda því fram að stóriðja á Austurlandi hafi þjónað hagsmunum kvenna. Atvinnuleysi var meira meðal kvenna en karla á Austfjörðum fyrir framkvæmdina og brottflutningur þeirra af svæðinu meiri en karla. Með stóriðjuverkefnum á Austurlandi voru sköpuð dæmigerð karlastörf þar sem meira var í húfi að skapa kvennastörf af ofangreindum ástæðum.“

Kannanir sýna að konur á Austurlandi komu minna að framkvæmdum en karlar. Hin nýju störf voru að nokkrum hluta unnin af erlendum karlmönnum, áberandi aukning á hlutfalli karla 2006, 2007 og 2008 er staðreynd en þá voru 18% karla á aldrinum 20–50 ára með erlent ríkisfang. Þessi mikla aukning stafar að miklu leyti af stórframkvæmdum og gríðarlegum umsvifum í byggingariðnaði á þessum árum en umfang þessara framkvæmda var slíkt að þær varð að manna að stórum hluta með innfluttu vinnuafli.

Konur höfðu minni trú á framkvæmdunum en karlar og töldu ekki að framkvæmdirnar mundu bæta efnahagslega stöðu sína í sama mæli og þeir. Miklu færri konur sáu fyrir sér að framkvæmdin skapaði þeim atvinnutækifæri, bæði vegna fjarlægðar til vinnu og langrar fjarveru frá heimili og börnum. Launamunur kynja á Austurlandi var yfir landsmeðaltali árið 2005 og stóriðjuframkvæmdirnar minnkuðu síst þann mun.

En höfum við eitthvað lært? Er ekki krafan um álvæðingu og stóriðjustefnu enn hávær? Er sú stefna eitthvað frábrugðin þeim áhættuleik sem fjármálageirinn lék í aðdraganda hrunsins og því brjálæði sem þar ríkti? Eru ekki uppi sömu kröfur hagsmunaaðila um að öllum hindrunum skuli rutt úr vegi, að leikreglur stjórnsýslunnar þvælist fyrir? Ríkir ekki vanvirðing gagnvart regluverkinu sem stjórnvöldum ber að fara eftir? Er lítið gert úr þekkingu fræðimanna á sviði náttúruvísinda þegar þeir vara við því að farið sé of geyst? Hver voru viðbrögð íslenskra stjórnvalda á sínum tíma þegar erlendir aðilar bentu á að bankarnir væru orðnir hættulega stórir? Var ekki þá talað um ímyndarvanda, jafnvel öfund? Hvernig hefur orðræðan verið þegar náttúruvísindamenn og þeir sem gæta eiga hagsmuna náttúru og umhverfis hafa bent á að fara þurfi varlega í virkjun jarðvarmans? Hún hefur gengið svo langt að störfum og þekkingu vísindamanna og annarra náttúruverndarsinna er líkt við öfgakenndar stjórnmálastefnur.

Frú forseti. Ég vék áðan að grein Andra Snæs Magnússonar í Fréttablaðinu síðasta laugardag en þar segir hann m.a. um jarðvarmann, með leyfi forseta:

„Þar hafði þróunin verið jöfn og stöðug frá hitaveituvæðingunni á kreppuárunum. Nú er engu líkara en menn hafi borað niður á kókaínæð og fyllt rækilega á sér nasirnar.“

Það á að margfalda fjölda og stærð jarðvarmavirkjana og svo virðist sem mörgum þyki eðlilegt að opinber fyrirtæki taki milljarðalán til að kanna hvort næg orka sé til fyrir annað álver. Brjálæðið heldur áfram. Orku- og auðlindamál eru ekki til umfjöllunar í þessari skýrslu. Þau eru mjög kynjuð, þau mál, þau eru gríðarlega kynjuð. Þeir hagsmunaaðilar sem hafa sig í mest frammi í orku- og auðlindamálum eru karlar. Þar fer lítið fyrir kynjasjónarmiðum þegar verið er að úthluta og ráðstafa þeim gæðum sem þar liggja undir. Umræðan er því miður allt of smituð af stórkarlapólitík. Slík sýn er ekki pólitík framtíðarinnar eða pólitík sem hugsar um hagsmuni komandi kynslóða.

Frú forseti. Kynjagreining á skýrslu rannsóknarnefndarinnar er ekki aukagagn sem fylgir þessari skýrslu til að uppfylla kröfur sem til kemur vegna þess að við erum svo heppin að formaður nefndarinnar er femínisti heldur vegna þess að hún er nauðsynleg og vegna þess að hún er í samræmi við íslensk lög. Við verðum að gera kynjasjónarmiðum hærra undir höfði við þá allsherjarendurskoðun sem lagt er til að fari fram, m.a. á stjórnsýslunni og því lagaumhverfi sem hana umlykur. Við verðum að tryggja breytt vinnulag, virðingu fyrir regluverkinu í þágu almannahagsmuna. Þar á meðal erum við að taka mið af mismunandi stöðu kynjanna við allar ákvarðanir. Hluti af endurreisninni er að taka mið af hagsmunum og sýn alls almennings í landinu en ekki einungis hluta hans.

Í lokin vil ég geta þess, frú forseti, að mér finnst vanta í skýrsluna ítarlegri umfjöllun eða ábendingar um stjórnsýsluna að því er varðar sveitarfélögin. Þar þarf sannarlega líka að huga að gagnsæi, hagsmunatengslum, siðareglum o.s.frv. En ég geri ráð fyrir að sú umræða eigi eftir að eiga sér stað og muni væntanlega líka eiga sér stað á vettvangi sveitarfélaganna og Sambands sveitarfélaga.

Frú forseti. Ég hef kosið í ræðu minni að fara fyrst og fremst yfir þessi kynjasjónarmið og það með hvaða hætti þau geta hjálpað okkur og að sú sýn geti hjálpað okkur við endurreisn Íslands. Við erum öll sprottin upp úr því kynjakerfi sem gerir körlum og karllægum sjónarmiðum hærra undir höfði en kvenlægum en til að gera betur þurfa bæði sjónarmiðin að koma að borðinu. Það gildir auðvitað um núverandi stjórnvöld eins og önnur stjórnvöld að þau spretta líka upp úr þessu kynjakerfi. Þess vegna þurfum við að hafa varann á og mér er nær að halda að við þurfum að gæta þess að kynjagreina allar athafnir okkar enda ber okkur að gera það samkvæmt jafnréttislögum.

En alveg í lokin vil ég taka það sérstaklega fram að rannsóknarnefndarskýrslan og úrvinnsla þingmannanefndarinnar er til sóma fyrir Ísland og fyrir þingið. Þarna fer stærsta tækifæri okkar og við eigum að freista þess eða gera eins og við getum til að axla þá ábyrgð sem nútíminn leggur okkur á herðar að skapa samfélag sem er okkur öllum til sóma.