138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:38]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur.

Hér fullyrðir hv. þingmaður bæði í sínu fyrra og seinna andsvari að ýmislegt sé hafið yfir vafa sem er það ekki, eins og til að mynda að samkvæmt íslenskum lögum sé bannað að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég furða mig á því að sú umræða hafi þá ekki farið hærra ef sannfæring þingmannsins er að svo sé.

Annað sem er umdeilt og umdeilanlegt er hvort um sé að ræða viðræðuferli eða aðlögunarferli. Það er heldur ekki hafið yfir vafa í pólitískum umræðum. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé um viðræðuferli að ræða en ekki aðlögunarferli.

Af hverju vann Vinstri hreyfingin – grænt framboð kosningarnar? Var það vegna þess að hún var á móti þessum tilteknu þáttum sem þingmaðurinn telur hér upp? Ég tel að svo hafi ekki verið heldur fyrst og fremst vegna þess að það var kominn tími til þess að ábyrgt stjórnmálaafl settist við völd hér í landinu og tæki til hendinni eftir þrotabú Sjálfstæðisflokksins.