138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:42]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið og mér þykir leitt ef ég veld henni hugarangri og geri hana orðlausa.

Varðandi fullyrðingar mínar sem hún telur hér upp að því er varðar afstöðu kynjanna til stóriðju er hér verið að vísa í skýrsluna sem fylgir skýrslu þingmannanefndarinnar, kynjagreiningu á aðdraganda hrunsins, og þar er byggt á heimildum og rannsóknargögnum.

Afstaða kvenna er auðvitað fjölbreytt og ég geri mér grein fyrir því að afstaða kvenna í Sjálfstæðisflokknum er að jafnaði nokkuð samhljóma afstöðu stóriðjusinna í landinu. Það finnst mér umhugsunarefni út af fyrir sig, en að jafnaði er það svo að nokkur kynjamunur er á afstöðunni þar sem karlar eru frekar á þeirri skoðun en konur. Maður getur velt fyrir sér hver ástæðan er. Hún er örugglega að hluta til sú sem var rakin í ræðu minni.

Varðandi orkugeirann og rannsóknir, þá er það vissulega svo að töluverðar rannsóknir þurfa að liggja til grundvallar áður en farið er af stað. Það er akkúrat það sem hefði betur verið gert að því er varðar þá fordæmalausu ákvörðun þegar farið var af stað í uppbyggingu í Helguvík áður en fyrir lá — ekki einu sinni með rannsóknum — hvort grundvöllur væri fyrir þeirri orkuöflun sem þar var lagt upp með. Þetta hefur aldrei gerst áður á Íslandi að menn byrji á stóriðjuuppbyggingu án þess að orka liggi fyrir.

Spurning mín snerist miklu frekar um þetta: Er réttlætanlegt að skuldsetja orkugeirann botnlaust í þágu þessara verkefna? Hér vil ég því að lokum í svari mínu lýsa yfir áhyggjum af einfaldri sýn sjálfstæðismanna og -kvenna á atvinnuuppbyggingu.