138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tel að sú umræða sem hér fer fram sé eðlileg, ég tel að það sé eðlilegt að hv. þingmenn vilji láta reyna á að þeir fái að nálgast þessi gögn til þess að taka upplýstar ákvarðanir. Ég vil hvetja menn til þess að fara nú að ljúka þessum lið dagskrárinnar þar sem boðað hefur verið að þingmannanefndin muni hittast, fara yfir þessar beiðnir, fara yfir ákvæðið í verklagsreglunum sem hv. þm. Birgir Ármannsson vísaði hér til og taka upplýsta ákvörðun í ljósi þeirra vinnubragða sem þingmannanefndin hefur lagt til að verði ástunduð í íslenskri stjórnsýslu. Ég vonast til að þingheimur treysti okkur til þess að halda slíkan fund og að þingflokksformenn eigi jafnframt friðsama og málefnalega umræðu um þetta málefni í hádeginu.