138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:56]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég skil ákaflega vel þessa umræðu og leggst ekki gegn henni, en við teljum okkur fara í einu og öllu eftir reglum, ekki bara verklagsreglum heldur líka þingsköpum. Ég minni þingmenn á 28. gr. sem segir að forsetinn setji nánari reglur um erindi sem berast þinginu. Erindi eru gögn frá ráðuneyti og stofnunum, samtökum og einstaklingum utan þings. Þessi sérfræðiálit, flest munnleg, eru gögn unnin af starfsmönnum þingsins, þeim sérfræðingum sem voru á launaskrá þingsins, það er alveg klárt, þannig að ég væri þá að brjóta þessar reglur.

Ég vil ræða þetta í hádeginu og ég verð að segja það vegna ummæla hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að ég veit ekki til þess af 30 ára reynslu minni sem lögmaður að ég hafi haft aðgang að vinnuskjölum starfsmanna ákæruvaldsins. (BÁ: En ákærandi …)

Ég reyndi að leysa þetta mál með því að þingflokkarnir hefðu aðgang að öllum þessum sérfræðingum og gætu kallað þá til sín. Það hefur þingflokkur Samfylkingarinnar nýtt sér. Þar geta þessir sérfræðingar tjáð sig munnlega ef þeir vilja. (Forseti hringir.) Það stendur enn þá opið.

Við fundum um þetta mál í hádeginu. Ég tek þetta auðvitað alvarlega en ég starfa eftir reglum.