138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:02]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Atli Gíslason talaði eins og hér væri um hvert annað þingmál að ræða þar sem venja væri að gögn gætu verið bundin trúnaði og það þyrfti að fara með þau með sérstökum hætti. Þetta er ekkert venjulegt mál sem við erum að ræða hér, þetta er mjög óvenjulegt og það hefur aldrei gerst fyrr í sögu þingsins að þingmenn séu að fara að taka sér það vald að gerast ákærendur í máli. Um það gilda allt önnur sjónarmið og viðmið. Það þýðir ekki fyrir hv. þingmenn í þessari þingmannanefnd að skýla sér bak við verklagsreglur sem nýttar voru (Gripið fram í: Þingsköp.) meðan nefndin var að vinna. (BirgJ: Þingsköpin …) Þingsköp? Ég held að menn verði að fara að gera sér grein fyrir því hvaða verkefni er fram undan hérna. Ætla menn að hafa það þannig að (Gripið fram í.) þingmenn hafi ekki allar upplýsingar fyrir framan sig? Ætla menn að hafa það þannig?

Ég held að það sé skýr vilji þingmanna í þessum sal að þessi gögn verði tafarlaust birt og gerð opinber. Um það hefur þessi umræða borið skýrt vitni, meiri hluti þingmanna er eindregið þeirrar skoðunar að óska eftir því (Forseti hringir.) að gögnin verði birt. Ég tel, virðulegi forseti, ófært að hefja þessa umræðu [Kliður í þingsal.] án þess að gögn liggi fyrir.