139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:38]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hef fullan skilning á því að hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins vilji eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra undir liðnum um óundirbúnar fyrirspurnir en það lá fyrir að hæstv. forsætisráðherra gæti ekki verið hér nákvæmlega á þeim tíma, í óundirbúna fyrirspurnatímanum. Um það var rætt og frá því greint á fundi með þingflokksformönnum og forseta Alþingis í morgun. Þannig verður ekki við allt ráðið en ég er viss um að hæstv. forsætisráðherra er tilbúin til þess að ræða með einum eða öðrum hætti um allt það sem þingmaðurinn vill ræða við hana undir öðrum liðum eða síðar í þinghaldinu þessa vikuna.