139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[21:33]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir spyr mig hvort ég telji að það eigi að fresta atkvæðagreiðslu um málið til að hægt sé að afla frekari gagna. Nú er það svo að formaður fjárlaganefndar og sú sem hér stendur, sem formaður félags- og tryggingamálanefndar, beittum okkur fyrir því að kalla til félags- og tryggingamálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Íbúðalánasjóð, Fjármálaeftirlit og Seðlabanka Íslands til að fá gleggri mynd af stöðu sjóðsins. Það má segja að sú heimsókn hafi bara gert mig staðfastari í þeirri trú minni að það sé eðlilegt að við látum rannsaka starfsemi sjóðsins, en ég verð að segja það bara heiðarlega að ég tel að við munum ekki fá gleggri mynd þótt við bíðum í tvo, þrjá daga. Það sem þó kom fram á fundinum með Fjármálaeftirlitinu var að Fjármálaeftirlitið og Íbúðalánasjóður voru nokkuð samstiga í því mati sínu hversu mikið fé þyrfti að leggja sjóðnum til til að hann næði 5% eiginfjárhlutfalli. Nú er það ekki svo að ég trúi því ekki að það sé þörf fyrir þetta fé, því að það geri ég. Því miður held ég að það sé hinn kaldranalegi raunveruleiki og við erum nú orðin vön fjármálaáföllum af ýmsum tegundum.

Mín skoðun er sú að málið sé orðið tækt til atkvæðagreiðslu en til þess að við fáum almennilega yfirsýn yfir málið og getum lært af mistökunum er mikilvægt að fram fari rannsókn á sjóðnum.