139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[21:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þingmanns áðan sem talaði ítrekað um fagleg vinnubrögð, ég get tekið undir það að málefnin bar brátt að sem hún gagnrýnir hér, en það er hins vegar þannig að ef við hefðum enn eitt árið látið ríkisábyrgðina standa fyrir utan efnahagsreikning hefði það borið vott um ófagleg vinnubrögð. Það er í takt við eðlilegar og góðar reikningsskilareglur að láta þessar skuldbindingar fara yfir í efnahagsreikning og fara með hann eins og aðrar skuldbindingar ríkissjóðs. Engar greiðslur úr ríkissjóði eiga sér stað í tengslum við þessa ráðstöfun, heldur er eingöngu um að ræða gjaldfærslu í ríkisreikningi. Það er mikilvægt að það komi fram vegna þess að hér talar hv. þingmaður eins og við höfum verið að dreifa út tæpum 24 milljörðum kr.

Varðandi Íbúðalánasjóð er hið sama á ferðinni. Það hefði ekki borið vott um fagleg vinnubrögð þingsins ef við hefðum ekki komið til móts við eiginfjárstöðu og vandræði sjóðsins, ef við gæfum ekki heimild þannig að Íbúðalánasjóður geti tekist á við það eins og bankar og lífeyrissjóðir í því að leysa skuldavanda heimilanna.