139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[12:19]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér er gengið til atkvæða um verulega breytt brunavarnalög en fyrr í vikunni samþykkti Alþingi ný mannvirkjalög og í september samþykkti það ný skipulagslög. Þetta er þrenna, eins og sagt er í boltanum, og nokkuð vel að verki staðið eftir átta ára aðdraganda en endurskoðunin fór af stað 2002 þegar hv. þm. Siv Friðleifsdóttir var umhverfisráðherra.

Um flugvallarmálið mikla, sem menn hafa rætt í sölum og afkimum, tókst í nótt samkomulag með nokkrum ævintýrabrag. Samkomulagið er þríþætt.

1. Fyrir hönd löggjafans hefur umhverfisnefnd tekist að knýja viðkomandi ráðherra til verka við að gera út um erfiðan og leiðinlegan ágreining í stjórnsýslunni.

2. Þessa lausn á að festa bæði í brunavarnalögin og loftferðalögin.

3. Ráðherrarnir fá tiltekinn tíma og eiga að skila af sér til nefnda Alþingis, umhverfis- og samgöngunefndar fyrir 15. maí í vor.

Ég stend að þessu samkomulagi ásamt þeim nefndarmönnum sem viðstaddir voru í nótt og þakka þeim og öllum nefndarmönnum samvinnuna og einnig hæstv. ráðherrum sem áttu hlut að máli. (Forseti hringir.) Ég hlýt að lokum að óska þingi og þjóð og þó sérstaklega hæstv. umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, til hamingju með skipulags-, mannvirkja- og brunavarnaþrennuna 2010. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)