139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[15:47]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég treysti mér svo sem ekki alveg til að skera úr um hvað er við hæfi í lagatexta þó að þetta hafi komið fram. Það er rétt sem kemur fram að þetta á eingöngu við leiðsögu- og hjálparhundana, að ef í ljós kemur að einhver í húsinu er með ofnæmi þar sem slíkur hundur kemur í stigagang eða sameiginlegan inngang þá er fjallað með ákveðnum hætti um hvernig eigi að taka á því vandamáli. Þar er talað um að leita til úrskurðarnefndar ef ágreiningur er um það því þá eru málefnalegar ástæður fyrir.

Þetta atriði, að orða þetta svona er vegna þess að þarna var leitað til sérfræðinga hvað varðar ofnæmi, varðandi hundaofnæmi. Það var mat þeirra að almennt ætti þetta ekki að valda neinum vandræðum og þess vegna er þetta orðað með þessum hætti. Það er náttúrlega ekki ætlast til að menn þurfi þar með að vera á lyfjum en eftir sem áður álít ég að ef slík tilfelli koma upp þá sé hægt að bægja því frá með lyfjum.

Þarna er eingöngu verið að tala um þau fimm til tíu tilfelli þar sem þessir hundar eru í fjölbýlishúsum þar sem er sameiginlegur inngangur, ef það eru þá svo margir, það liggur svo sem ekki nákvæmlega fyrir. Þetta eru mjög ströng atriði og það er verið að finna málsmeðferðina ef slíkur ágreiningur kemur upp sem ég held að sé mjög mikilvægt.

Vonandi mun nefndin líka skoða aðra þætti. Ég hef fengið ábendingar um að þetta snúist ekki bara um ofnæmi, það geta verið aðrir sjúkdómar eins og ofsahræðsla við hunda sem líka getur valdið erfiðleikum og auðvitað verður nefndin að skoða hvernig á að taka á því atriði ef það eru lögmætar ástæður fyrir því að kvarta yfir því að hundur sé í húsinu, að þá verði tekið á því með svipuðum hætti og þarna er gert ráð fyrir. Það sem er verið að stoppa er kannski það að einn aðili geti stöðvað það að leiðsögu- eða hjálparhundur verði í húsinu án þess að þurfa að gefa neinar málefnalegar ástæður fyrir andstöðunni.