139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

útflutningur hrossa.

433. mál
[16:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um útflutning hrossa. Eins og bæði hæstv. ráðherra sem og hv. þingmaður hafa rætt um á undan mér er þetta einhvers konar heildarrammi um útflutning hrossa, lagfæringar á eldri löggjöf og viðbætur nokkrar. Það má kannski segja, og þarf ekki að hafa mörg orð um það, að verið sé að setja þetta saman í sátt og samlyndi við hagsmunaaðila sem og aðra og um þetta gæti þar af leiðandi ríkt nokkur sátt. Það er afar mikilvægt og kannski til eftirbreytni og ekki síst fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ef hægt væri að hafa sambærilega sátt, samlyndi og samráð á öllum sviðum þess ráðuneytis. En því er ekki að heilsa þegar hér koma inn frumvörp sem varða sjávarútveginn.

En varðandi þetta frumvarp, sem er í 10 greinum, held ég megi segja að það séu ágætisatriði sem koma þar fram. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að þetta er mikilsverð útflutningsgrein, skiptir gríðarlegu máli fyrir atvinnulíf allt í landinu. Hestamennska, hrossarækt og allt í kringum hestamennsku og umhirðu hestsins hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum. Þó það sé þannig að um aldamótin 2000 höfum við verið farin að flytja út á 4. þúsund hross en erum núna að reikna með um 1.500–2.000 — og menn voru jafnvel að gæla við að komast enn hærra á þeim tíma — þá er ég ekki viss um að verðmæti útflutningsins hafi lækkað nokkuð. Ég hef jafnvel trú á að verðmætið hafi hækkað ef eitthvað er. Á þeim tíma var verið að flytja út mun meira af almennum reiðhestum en núna er það þó þannig að í heiminum öllum er ræktun á íslenska hestinum orðin mjög almenn og ég býst við að í Þýskalandi fæðist jafnmörg folöld og á Íslandi á hverju ári. Það er því ekkert sérkennilegt að markaðurinn hefur harðnað og það er erfiðara að flytja út og það eru kannski fyrst og fremst dýrari og verðmeiri gripir sem eru fluttir úr landi.

Helstu breytingarnar sem koma fram, og hafa verið reifaðar áður, eru til að mynda að ekki megi lengur flytja hross út án þess að þau séu örmerkt, það þarf sem sagt að koma örmerki fram í hestavegabréfinu. Ég held að það sé fullkomlega eðlilegt ekki síst í ljósi þess að hér er um verðmæta gripi að ræða. Það er eðlilegt að þeir séu merktir á eins fullkominn hátt og við þekkjum í dag.

Ég vil nefna af öðru tilefni að fyrir einu til einu og hálfu ári var því breytt með reglugerð að ekki mætti lengur setja hross í sláturhús öðruvísi en þau væru örmerkt. Það var auðvitað afleitt. Það var einhver undanþága sem við hefðum vel getað sótt um til Evrópusambandsins um að viðhalda því að hross þyrftu ekki að fara örmerkt í sláturhúsið en það var ekki gert. Þar er um miklu verðminni gripi að ræða og getur verðmæti þeirra kannski verið í kringum 20 þúsund og einn tíundi hluti hefði þá farið þá til örmerkingarinnar sem er auðvitað galið. Við erum hér væntanlega að tala um að meðaltalsverðmæti hvers útflutts hross sé hið minnsta 1 millj. kr., og jafnvel meira, gæti ég trúað, án þess að þær upplýsingar liggi fyrir í frumvarpinu.

Einnig er komið til móts við það að þrengja heimildir um tíma þannig að tryggt sé að dýravernd sé gert heldur hærra undir höfði, þ.e. að tryggja velferð dýranna. Það er hið besta mál. Jafnframt er fjallað um að ekki megi flytja hross frá Íslandi með flutningsförum sem flytja samtímis dýr frá öðrum löndum. Það er auðvitað í sóttvarnaskyni og verndarskyni fyrir íslenska hestinn þegar hann kemur á áfangastað, að hann sé ekki orðinn veikur þar. Í ljósi þeirra pesta sem gengið hafa á Íslandi, hitapestarinnar árið 2001 og eins þessarar öndunarfæraveiki sem gekk hér á síðasta ári — og við erum kannski ekki algerlega búin að sjá fyrir endann á því með hvaða hætti það fjarar út — er mikilvægt að við förum að huga að sóttvörnum á allan hátt. Ég tel vel að það sé gert í þessu frumvarpi um útflutning, að það sé líka hugsað til þess að þeir hestar sem verða fluttir út til lífs komist á áfangastað í tryggu umhverfi.

Einnig er fjallað um að hækka gjald, sem var 500 kr. í lögum, greitt af hverju hrossi í stofnverndarsjóð. Áður var sá sjóður meðal annars notaður til að kaupa úrvalsgripi. Mér varð hugsað til þess í dag í umræðum um auðlindir og HS Orku, umræðum sem Vinstri grænir hafa ekki síst staðið fyrir, að það er gott að sú hugsun skuli ekki hafa smitast yfir í þessa grein. Þá mundu menn væntanlega efla þennan stofnendasjóð gríðarlega og kaupa upp alla ræktunargripi á landinu til að verja auðlindina. En það er gleðilegt að það viðhorf skuli ekki vera ríkjandi alls staðar í gegnum allt atvinnulífið. (Sjútv.- og landbrh.: Það er aldrei umdeilanlegt.) Já, það er rétt, það væri hægt að byggja upp Hólabúið sem er reyndar umdeilanlegt í því sambandi, þar er ríkisrekin hrossarækt. En við skulum kannski taka þá umræðu seinna, hún á alla vega ekki heima í frumvarpinu um útflutning. En vissulega gæti það átt heima í umræðum um almenningseign á auðlindum og eðlilega samkeppni í samkeppnisrekstri.

Eins og fram kom í umræðunni er það auðvitað nokkur hækkun að þrefalda gjaldið. Hins vegar var upphæðin einungis 500 kr. og eins og ég kom inn á áður voru hross áður fyrr mun verðminni. Að hluta til var verið að flytja út hross sem voru kannski með lægra verðgildi, til hestaleigu og almenningssports erlendis nema sá markaður er orðinn mun erfiðari í dag vegna þess að menn eru einfaldlega farnir að rækta fleiri hross á erlendri grundu af íslensku kyni, samkeppnin er erfiðari. En verðmeiri hrossin og þau bestu eru gjarnan ræktuð á Íslandi og flutt út þannig að hlutfallslega er upphæðin mjög lág. Mér finnst það án efa umræðunnar virði, og við munum taka þá umræðu í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þegar við fjöllum um þetta, hvort hagsmunir greinarinnar séu ekki betur tryggðir með því að þetta gjald verði hugsanlega hærra þannig að sjóðurinn verði sterkari þar sem rannsóknir og styrkir mundu nýtast greininni betur, og að þessi upphæð sé í raun hlutfallslega lág. Við þurfum að ræða hvort þetta gjald eigi rétt á sér í framtíðinni og hvort þetta sé eðlileg leið til að fjármagna rannsóknir og styrki.

Lokaorð mín um þetta eru einfaldlega þessi: Ég held kannski að við þurfum ekkert gríðarlega langan tíma í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd — hæstv. ráðherra fór fram á að við mundum taka okkur langan og góðan tíma. Við mundum örugglega taka okkur góðan tíma og fara vel yfir málið. En þegar mál eru unnin á þann veg að um þau er sátt, þegar þau eru unnin í samvinnu og samstarfi við beina og óbeina hagsmunaaðila, er miklu líklegra að þau gangi eðlilega í gegnum þingið og minni hætta á að menn klúðri lagasetningu eða framkvæmd eins og við höfum fengið að kynnast á undanförnum dögum.