139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

bann við búrkum.

252. mál
[16:49]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu áhugaverða efni sem er grundvallarmál og snýst um það hvernig við virðum trúfrelsi og hvernig við virðum tjáningarfrelsi. En þetta snýst jafnframt um það hver mörkin eru á milli kvenréttinda annars vegar og kúgunar hins vegar. Þetta snýst líka um það hver mörkin eru á milli tísku og þæginda, t.d. af því að vera með slæðu, eða það að vera í hreinu kláru fangelsi sem margir ætla að konur sem klæðast búrku séu í.

Ég er sammála hæstv. ráðherra. Ég tel að að svo stöddu sé ekki hægt að setja lög um það hverju fólk eigi að klæðast. Hvar endar sú lagasetning ef ríkið ætlar að ákveða hvaða fötum fólk klæðist? Ég sé það ekki og að því fengnu get ég ekki staðið fyrir lagasetningu í þá veru.