139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

bann við búrkum.

252. mál
[16:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem mér fundust koma frá hjartanu. Hann talaði af mikilli sannfæringu um það að hann er algjörlega mótfallinn því að banna búrkur hér á landi. Svör hans voru skýr og ég vil þakka sérstaklega fyrir það og líka um leið þessa umræðu sem að mínu mati hefur verið málefnaleg. Það mátti einfaldlega búast við því að skiptar skoðanir væru um þetta því að þetta tengist eðlilega öðru mjög viðkvæmu málefni, tengist umræðu um trúfrelsi og því hvernig samfélag við viljum byggja hér upp.

Það skiptir miklu máli, og ég vil taka undir það með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, að við erum hér ekki að tala um slæður. Við erum að tala um það að konur verði í búrkum, í klæðnaði þar sem bara sést í augun, eingöngu sést í augu kvenna (SER: Og varla það.) og varla það. Hvernig er hægt að sjá hvaða persónur eru þar á bak við? Ég vil taka undir með Amal Tamimi sem segir að þetta sé hluti af ákveðnu karlaveldi og ég vil leyfa mér að mótmæla því að menn noti trú eða pólitík — sem oft á tíðum er líka nátengd trúnni — til að setja af stað ákveðnar heimild til að leyfa svona, nota trúfrelsið til að ganga inn á réttindi sem eru sjálfsögð í stjórnarskrá okkar. Þar er innifalið jafnrétti og kvenfrelsi. Ég vil ekki að menn geti, í krafti þeirrar pólitíkur sem tengist trúfrelsi, gengið á réttindi annarra, ekki síst jafnrétti og kvenfrelsi.

Ég þakka þessa umræðu um leið og ég lýsi mig ósammála hæstv. innanríkisráðherra um það að ekki eigi að banna búrkur. Ég tel notkun búrkna ekki samræmast íslensku samfélagi eða íslensku samfélagsmynstri og þá er ég ekki síst með kvenfrelsi í huga.