139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[15:51]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er greinilega mat fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að stór hluti íslenskra fyrirtækja þurfi að óttast þetta frumvarp eins og kemur fram í niðurlagi nefndarálits þeirra, að verði þessi heimild lögfest leiði hún til þess að framtíðarverðmæti íslenskra fyrirtækja rýrni, kaupendur og fjárfestar haldi að sér höndum, það dragi úr áhuga erlendra aðila á að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum og fjármálastofnanir verði tregari til að veita fyrirtækjum og fjárfestum lánafyrirgreiðslu ef þetta frumvarp verður að lögum.

Það er því eðlilegt að álykta að það sé mat viðkomandi þingmanna að staða þeirra fyrirtækja sem þeir eru að fjalla um feli í raun í sér alvarlega röskun á samkeppnisstöðu með tilheyrandi kostnaði fyrir neytendur, þ.e. það er þá mat þeirra þingmanna sem undir þetta nefndarálit rita að þessi fyrirtæki séu þá í einokunaraðstöðu á kostnað virkrar samkeppni hér á landi og þar með á kostnað neytenda.

Það ber að árétta hér að staða neytenda liggur ætíð til grundvallar í þessu frumvarpi og Samkeppniseftirlitið verður alltaf að hafa sjónarmið neytenda í fyrirrúmi, þ.e. að það geti ekki skipt upp fyrirtækjunum sé það til hagsbóta fyrir neytendur að fyrirtækin séu stór. Þessi afstaða Sjálfstæðisflokksins sýnir mikilvægi þess í raun að frumvarpið verði að lögum því að nefndarálitið sýnir að sjálfstæðismenn telja að stór hluti íslenskra fyrirtækja þurfi að haga starfsemi sinni í ljósi þessara laga, þ.e. að þau séu í einokunarstöðu í dag, að sú staða raskar samkeppni því að að öðrum kosti þyrftu þau ekki að óttast þessi lög og um leið séu þau að valda miklum kostnaði fyrir neytendur.

Röksemdir Sjálfstæðisflokksins gegn þessu frumvarpi eru þar með að mínu mati besta röksemdin með frumvarpinu.