139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þingmaður er að forherðast í andstöðu sinni gegn íslensku atvinnulífi og íslenskum neytendum og hann verður að eiga það við sig.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að öll fyrirtæki þessa lands mega óttast ákvæði þessa frumvarps einfaldlega vegna þess að það er ekkert í lagatextanum sjálfum, það eru engar skýringar í lagatextanum sjálfum á því við hvaða aðstæður eða með hvaða hætti Samkeppniseftirlitinu er heimilt að beita þeim valdheimildum sem hv. þingmaður vill færa eftirlitinu. Ég hef sagt að það sé lágmarkskrafa að slík valdbeiting sé útfærð nánar í lagatextanum, a.m.k. nánar en gert er í þessu frumvarpi.

Það eru ekki bara stór fyrirtæki sem eru þarna undir heldur öll fyrirtæki. Ég get t.d. nefnt það við hv. þingmann að mjög margir markaðir á Íslandi hafa verið skilgreindir, eins og t.d. markaður með íblöndunarefni til brauðgerðar. Þar er fyrirtæki sem er í (Forseti hringir.) markaðsráðandi stöðu og ég geri ráð fyrir að það fyrirtæki, sem er nú ekki stórt á alla mælikvarða, megi (Forseti hringir.) jafnvel eiga von á því að Samkeppniseftirlitið banki upp á hjá því og óski eftir að því verði (Forseti hringir.) skipt upp ásamt svo mörgum öðrum.