139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að við eigum á öllum mörkuðum á Íslandi að stuðla að virkri, heiðarlegri og eðlilegri samkeppni. En þá verðum við líka að tryggja það að löggjöfin sem fyrirtækjunum er ætlað að starfa eftir sé skiljanleg og skýr og að þau viti eftir hvaða leikreglum eigi að fara. Í þessu frumvarpi er verið að gefa Samkeppniseftirlitinu heimild sem gengur út á að það geti án allrar leiðsagnar í lögum brotið upp fyrirtæki sem ekki hafa gerst brotleg við lög. Þegar lagagrundvöllurinn sem fyrirtækin í landinu þurfa að starfa eftir er slíkur þá eflum við ekki samkeppni, við aukum óvissu í rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni og hygg að við séum sammála um að æskilegt sé að málshraði slíkra mála sem fara til Samkeppniseftirlitsins eigi að vera sem mestur. Það er rétt hjá hv. þingmanni að á umliðnum árum, ekki bara í síðustu fjárlögum, hefur verið aukið við fjárveitingar til Samkeppniseftirlitsins. Það var líka gert þegar sá flokkur sem ég tilheyri var í ríkisstjórn, fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins voru þá aukin býsna stórlega. En það breytir því ekki að það er algerlega óásættanlegt að mál sem varða meint brot á samkeppnislögunum þurfi að taka tvö til fjögur í meðferð stjórnvaldsins, að það þurfi að taka tvö til fjögur ár fyrir Samkeppniseftirlitið að komast að niðurstöðu í málum sem varða einstök fyrirtæki. Þetta sjá allir. Hv. þingmaður mundi ekki sætta sig við, ef hún ræki fyrirtæki og væri borin þeirri sök að hafa brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga, að þurfa að bíða í tvö til fjögur ár eftir því að fá niðurstöðu um þær ávirðingar. Þessu verður að breyta.

Þegar menn breyta samkeppnislögunum með þeim hætti sem hér er kveðið á um, með uppbrotsheimildinni og (Forseti hringir.) málskotsheimild Samkeppniseftirlitsins til dómstóla, er því miður verið að lengja þann (Forseti hringir.) tíma sem mál munu vera til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.