139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er tiltölulega gjarn á að koma í andsvör við mig og telja að ég eigi að einhverju leyti að leiðrétta það sem ég sagði.

Margvísleg gagnrýni kom fram á frumvarpið í meðferð viðskiptanefndar á málinu. Það sem ég átti hins vegar við í ræðu minni var að ég teldi ekkert hafa komið fram við vinnslu málsins sem gerði það að verkum að ég treysti ekki Samkeppniseftirlitinu til að fara með þessa valdheimild. Þess vegna styð ég málið. Ef ég treysti ekki Samkeppniseftirlitinu til að fara með þessa valdheimild, starfa innan stjórnsýslulaganna og gæta að þeim hagsmunum sem því er falið samkvæmt lögum, mundi ég að sjálfsögðu ekki styðja þetta mál en það geri ég.