139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að ræða um nokkra þætti þessa máls og benda kannski á þá umræðu sem hefur líka verið úti í samfélaginu. Ég vil byrja á því að ég hef oft á tíðum á liðnum árum verið talsvert undrandi á störfum Samkeppniseftirlitsins og hvernig það hefur valið sér verkefni til að tætast í en látið önnur verkefni, sem í augum allflestra Íslendinga hefur kannski legið í augum uppi að Samkeppniseftirlitið ætti að skipta sér af, að því er virðist meira og minna kyrr liggja á grundvelli þess að það hafi ekki haft lagaheimildir til þess. Hér er ég fyrst og fremst að vísa til þess að samþjöppun á smásölumarkaði hefur verið með miklum ólíkindum á matvælamarkaðnum í mjög langan tíma og að Samkeppniseftirlitið hefur ævinlega, þegar að því hefur verið fundið, komið með þau rök og svör að það hafi ekki lagaheimildir til að skipta sér af þessu.

Síðast varð veruleg samþjöppun í grunnframleiðslu á svínakjöti, svínaframleiðendum, þar sem einn aðilinn er kominn í sömu stöðu og samþjöppunin á matvörumarkaðnum í smásölunni var líka, 60–70% jafnvel eða enn stærra, og enn á ný taldi Samkeppniseftirlitið sig ekki hafa lagaheimildir til að gera annað í málinu en fara fram á einhvers konar aðskilnað í rekstri en ekki neitt frekar.

Á sama tíma hefur sama eftirlitsstofnun haldið því fram að ársfundir einyrkja, eins og Bændasamtakanna — það hefði þess vegna getað verið sjálfstætt starfandi pípara — væru samráðsfundir og væru þar af leiðandi ólöglegir, og gerði talsvert í því að tætast í slíkum samtökum, þó svo að ýmislegt er varðar til að mynda búvörulög hefði komið þar fram. Ég ætla því að þakka formanninum, hv. þm. Lilju Mósesdóttur, fyrir að ítreka það enn og aftur í framsöguræðu við 3. umr. að ákveðin ákvæði samkeppnislaga eiga ekki við á búvörumarkaði, sérstaklega að því er varðar mjólkurvörur og fleiri slíka hluti. Og við sem erum að fjalla um málið hljótum þar með að skilja það þannig að Samkeppniseftirlitið muni þá sinna þeim verkefnum sem því ber að sinna en láta önnur eiga sig, sem það svo sannarlega á ekki að sinna og heyrir ekki undir verksvið þess. Ég vildi að þetta kæmi skýrt fram í ræðustól á þingi en ekki einungis í álitinu sjálfu að ég hef haft nokkrar efasemdir um að það dygði, það þyrfti jafnvel að hafa það í álitinu en bæði hv. þm. Lilja Mósesdóttir og fleiri og eins forsvarsmenn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og fleiri samtaka og stofnana hafa lýst því yfir að þetta sé nægilegt. Hér erum við sem sagt að fela Samkeppniseftirlitinu að það fái víðtækar heimildir til að fara inn í fyrirtæki og jafnvel án þess að sannast hafi að þau hafi á nokkurn hátt brotið af sér og Samkeppniseftirlitið fær þannig í raun og veru bæði eftirlits- og dómsvald og getur rannsakað, reifað og refsað.

Í ljósi þess sem ýmsir hafa farið yfir, og ég vitna til ræðu hv. þm. Sigurgeirs Sindra Sigurgeirssonar sem hann hélt við 2. umr. í desember, er rétt að reifa það í ræðustól að ef Samkeppniseftirlitið nýtir ekki þær heimildir skynsamlega og fer með þetta vald á grundvelli stjórnsýslureglna og rannsakar vel mál og gætir að andmælarétti en gætir ekki síst vel að meðalhófi í aðgerðum sínum er auðvitað alveg ljóst að við þingmenn hljótum að fylgjast mjög náið með því með hvaða hætti Samkeppniseftirlitið fer með þá heimildaraukning sem við ætlum að veita því og hvernig það fer með það vald. Ég held að við verðum að hafa sérstakan vara á og lýsa því yfir að í ljósi þess hvernig Samkeppniseftirlitið hefur því miður ekki alltaf aukið traust meðal þjóðarinnar í því sem það hefur tekið sér fyrir hendur þá hljótum við að fylgjast með störfum þess með sérstakri athygli í kjölfar þess að það fær þessar auknu heimildir. Ég tel til að mynda að þau sjónarmið sem ég er að reifa í ræðustól í dag séu þess eðlis að það megi skilja sem svo að mitt samþykki við því að ganga svona langt að fela Samkeppniseftirlitinu þessar víðtæku heimildir sé skilyrt því að menn fari mjög varlega með það vald og af mikilli skynsemi og að við munum taka málið til umfjöllunar aftur í þinginu eins fljótt og auðið er ef við teljum að Samkeppniseftirlitið fari ekki nægilega varlega með það vald.

Hins vegar er ljóst að í landi eins og okkar þar sem ríkir fákeppni þurfum við að hafa mjög skilvirk samkeppnislög og það þýðir auðvitað að til að geta framfylgt slíkum lögum þarf eftirlitið að hafa þær heimildir sem duga til að ná fram því markmiði sem við erum að setja, að við viljum hafa eðlilega samkeppni á sem flestum mörkuðum eins og eðlilegt er.

Hins vegar vil ég enda mál mitt á og ítreka það sem kemur fram í síðustu efnismálsgreininni í meirihlutaálitinu þar sem sagt er, með leyfi forseta:

„Við umfjöllun nefndarinnar var einnig rætt um heimildir afurðastöðva í mjólkuriðnaði til að gera samninga sín á milli um verðfærslu tiltekinna afurða þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga, sbr. ákvæði búvörulaga, nr. 99/1993, sbr. lög nr. 85/2004, um breytingu á þeim. Samkvæmt sömu lögum er þeim einnig heimilt að sameinast eða eiga með sér samstarf um verkaskiptingu, án þess að það heyri undir samkeppnislög. Í nefndinni kom til umræðu hvort frumvarpið raskaði þessum heimildum á einhvern hátt. Með hliðsjón af viðteknum lögskýringarreglum telur meiri hlutinn að búvörulög víki áfram til hliðar vissum ákvæðum samkeppnislaga. Frumvarpið mun því engin áhrif hafa á greindar sérheimildir afurðastöðva í mjólkuriðnaði.“

Ég ætla að vona að það sé rétt sem hér kemur fram og vil halda því fram að það sé þá líka skilningur minn að þetta dugi til að Samkeppniseftirlitið virði þetta ákvæði og sinni störfum sínum af trúmennsku og kostgæfni en átti sig á að því er fært hér mikið vald sem fara þarf með af skynsemi og meðalhófi.