139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég veit rétt hefur Samkeppniseftirlitið skrifað álit um matvælamarkaðinn og haft ýmsar athugasemdir og síðan var gerð sátt við fyrirtæki á þeim markaði upp á 217 millj. núna rétt fyrir jólin. Og ég held að það hafi verið árið 2009 sem það birti mjög mikla skýrslu, t.d. um kjötvörumarkaðinn. Ég kann þetta ekki allt utan að en ég held að Samkeppniseftirlitið hafi verið virt fyrir þetta þó að ég ætli ekki að standa hér sem sérstakur málsvari Samkeppniseftirlitsins þannig lagað séð, eins og krakkarnir segja.

Mér finnst hins vegar alveg mega velta vöngum yfir því hvort samtök eins og Bændasamtökin eða ýmis samtök, ég biðst afsökunar á að mér koma engin önnur í hug akkúrat núna, (SIJ: Lögfræðingar, tannlæknar.) já, lögfræðingar, tannlæknar, einmitt, ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að hjálpa mér út úr þessu. Það er þekkt í fræðunum að einmitt einhver svona fræðafélög og bændafélög eða einhver slík eru einmitt að hluta til í samráði sem er ekki gott fyrir samkeppni í landinu. Þetta er bara þekkt í hagfræðinni sem er það fag sem ég las lengst.