139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson sömu spurningar og ég spurði hv. þm. Eygló Harðardóttur rétt áðan. Gefum okkur að hann reki fyrirtæki og reki það afskaplega vel. Með góðu skipulagi og góðri stjórnun getur hann lækkað verð til neytenda og bætt þjónustuna og með samböndum sem hann hefur erlendis getur hann auk þess lækkað verðið enn frekar. Nú stækkar fyrirtæki hans og stefnir í að ná yfir meira en helming af markaðnum sem getur verið mjög þröngur og lítill. Hvað telur hv. þingmaður að hann mundi gera? Mundi hann ekki hækka verðið og auka hagnaðinn hjá sér? Annars þarf hann að óttast það að Samkeppniseftirlitið líti á stærð hans sem ógnun við samkeppni á markaðnum, því það þarf ekki vera um neina sök að ræða eða að lög hafi verið brotin. Eftirlitið getur því sagt að fyrirtæki hans ógni neytendum og það ætli að skipta því upp. Það gerir að verkum að hann tapar heilmiklum peningum. Mundi hann ekki reyna að stöðva vöxtinn með því að hækka verðið?

Síðan er þessi hugsun um búvörulög og samkeppnislög sem kemur fram í framhaldsnefndaráliti meiri hlutans. Er það ekki dálítið varasöm lögskýring að búvörulög, sem ekki eru um samkeppni, ég hef ekki litið svo á að þau séu um samkeppni, gangi sem sérlög inn í samkeppnislög, inn í lög sem sett eru seinna? Er ekki eðlilegra að álykta sem svo að seinni lög taki fram fyrir óskyld lög sem eru búvörulög? Hefði ekki verið eðlilegra að setja ákvæði hreinlega inn í textann ef þetta á að gilda? Um þetta eru greinilega mjög skiptar skoðanir þeirra sem skrifa undir framhaldsnefndarálit meiri hlutans. Er þetta ekki dálítið varasamt og er þetta ekki akkúrat leið til að búa til ágreining og dómsmál?