139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:01]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið látið að því liggja í málflutningi um þetta frumvarp í dag og við fyrri stig þessa máls að hér sé um að ræða matskennda heimild sem Samkeppniseftirlitið geti beitt án þess að um fullnægjandi rökstuðning sé að ræða. Í minnisblaði sem barst viðskiptanefnd í fyrravor þegar þetta mál var til umfjöllunar í nefndinni fyrst — eins og sjá má á dagsetningunni hefur það verið ansi lengi á borði viðskiptanefndar — gerir Samkeppniseftirlitið skriflega grein fyrir meginþáttum við rannsókn máls eins og þessa. Í fyrsta lagi þarf Samkeppniseftirlitið að skilgreina mjög ítarlega málið og markaði sem því tengjast landfræðilega, hvers konar markaði sé um að ræða o.s.frv., og í framhaldi af skilgreiningu markaða að afla ítarlegra upplýsinga um aðstæður á viðkomandi mörkuðum. Að því loknu tekur Samkeppniseftirlitið saman greinargerð sem nefnist andmælaskjal þar sem helstu atvikum málsins er lýst og greint er frá því hvaða tilteknu aðstæður eða háttsemi kunni að fara gegn ákvæðum samkeppnislaga eða kunni að hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Andmælaskjalið er svo sent málsaðilum og þeim gefinn hæfilegur frestur til að gera skriflegar athugasemdir og koma að skýringum eða gögnum.

Að fram komnum öllum sjónarmiðum í málinu tekur Samkeppniseftirlitið formlega ákvörðun og sé það niðurstaða eftirlitsins að beita íhlutun, svo sem uppskiptingu fyrirtækis, verður eftirlitið að leiða í ljós með skýrum hætti þær samkeppnishömlur sem um er að ræða. Jafnframt verður að ganga úr skugga um að ekki sé fyrir hendi annað jafnárangursríkt úrræði sem er minna íþyngjandi. Þegar Samkeppniseftirlitið hefur tekin ákvörðun geta svo viðkomandi fyrirtæki skotið henni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála eða eftir atvikum dómstóla í framhaldinu.

Sé um uppskiptingu fyrirtækis að ræða gildir sú undantekningarregla til hagsbóta fyrir viðkomandi fyrirtæki að málskot til dómstóla frestar réttaráhrifum úrskurðar og tryggir það réttaröryggi viðkomandi fyrirtækja. Af þessu má sjá að mjög ítarleg vinna þarf að vera á öllum stigum málsins áður en til íhlutunar (Forseti hringir.) Samkeppniseftirlits kemur.