139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:08]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er á ferð mikilvægt frumvarp sem miðar að því að efla virka samkeppni í atvinnulífi okkar neytendum í landinu til hagsbóta. Með nokkurri einföldun má halda því fram að eitt helsta sérkenni íslensks viðskiptalífs sé fámennið sem leiðir af sér að samkeppni á víða undir högg að sækja. Ísland er að stórum hluta fákeppnismarkaður og leiðin til virkrar samkeppni því oft og tíðum torsótt.

Á undanförnum árum hafa komið upp mál sem tengjast fákeppni og samþjöppun á mikilvægum mörkuðum, svo sem matvöru-, mjólkurvöru-, fjarskipta-, lyfja- og fjölmiðlamarkaði svo nokkur dæmi séu nefnd. Við aðstæður þar sem einn eða fáir aðilar ráða lögum og lofum á tilteknum mörkuðum er hætta á að hagsmunir neytenda séu fyrir borð bornir. Það er mikilvægt að við látum ekki fámennissjónarmið draga úr viðleitni okkar til að stíga skref sem færa okkur nær takmarkinu um heilbrigða viðskiptahætti á virkum samkeppnismarkaði.

Mikilvægasta ákvæði þessa frumvarps kemur fram í 2. gr. þar sem Samkeppniseftirlitinu eru færðar nýjar heimildir til að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að efla samkeppni. Þessa aðgerðir geta verið af ýmsu tagi. Þær geta í alvarlegustu tilvikum falið í sér að skipta upp markaðsráðandi fyrirtækjum ef rannsóknir eftirlitsins gefa til kynna að aðgerðir séu nauðsynlegar til að vernda mikilvæga almannahagsmuni. Kveikjan þarf að vera aðstæður eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða hefur skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns.

Nýmæli er að Samkeppniseftirlitið þarf ekki að sýna fram á að viðkomandi fyrirtæki hafi brotið gegn bannreglum samkeppnislaga. Eins og kemur fram í frumvarpinu er hins vegar skýrt að Samkeppniseftirlitið þarf að uppfylla tiltekin skilyrði svo grípa megi til þessara valdheimilda.

Þetta kemur vel fram í athugasemdum við frumvarpið þar sem segir, með leyfi forseta:

„Verður Samkeppniseftirlitið í því samhengi að skilgreina viðkomandi markað og leiða í ljós með skýrum hætti þær samkeppnishömlur sem um er að tefla. […] Ljóst er hins vegar að aðeins verður gripið til slíkra aðgerða í undantekningartilvikum og uppfylla verður ákvæði 3. málsl. 2. mgr. um að ekki sé fyrir hendi jafnárangursríkt úrræði sem er minna íþyngjandi.“

Í þessu samhengi er rétt að vekja athygli á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi kemur þarna fram að á Samkeppniseftirlitinu hvílir rík rannsóknarskylda, sönnunarbyrði og krafa um skýran rökstuðning fyrir aðgerðum. Í öðru lagi er lögð áhersla á það með breytingartillögu meiri hluta viðskiptanefndar að Samkeppniseftirlitið gæti meðalhófs í sínum aðgerðum á markaði. Í þriðja lagi er skýrt að hér er um að ræða eins konar neyðarhemil sem eingöngu skal gripið til í undantekningartilvikum þegar ríkir almannahagsmunir krefja. Loks er rétt að árétta að viðkomandi fyrirtæki geta skotið ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og eftir atvikum til dómstóla.

Það hefur komið fram í umfjöllun viðskiptanefndar að fyrirmyndir að slíkum almennum valdheimildum er að finna í löggjöf nágrannaþjóða okkar austan hafs og vestan. Í fyrsta lagi má benda á fordæmi úr norsku samkeppnislöggjöfinni þar sem í 14. gr. kemur fram að unnt sé að grípa til almennra stjórnvaldsaðgerða gegn skilmálum, samningum eða aðgerðum sem takmarka eða eru líklegar til að takmarka samkeppni. Þessu ákvæði má beita jafnvel þó að fyrirtæki hafi ekki brotið gegn bannákvæðum norskra samkeppnislaga.

Í greinargerð með norsku lögunum segir að bannákvæði norskra laga, sem eru sambærileg bannákvæðum íslensku samkeppnislaganna og lúta að ólöglegu samráði og misnotkun markaðsráðandi stöðu, eigi að taka til flestra tilfella sem varða aðstæður sem hamla eða skaða samkeppni. Hins vegar sé ekki hægt að útiloka að upp kunni að koma aðstæður þar sem bannákvæðin veiti ekki nægilega vernd og eru nefndir sem dæmi söluskilmálar sem hamla því að nýir aðilar komist inn á markaði.

Í öðru lagi má vísa til samkeppnisréttar í Bretlandi þar sem einnig er að finna víðtækar heimildir til að grípa til aðgerða gegn hömlum á samkeppni þar sem sömuleiðis er ekki gert að skilyrði að um brot a bannreglum breskra samkeppnislaga sé að ræða.

Í þriðja lagi má vísa til samkeppnislaga vestan hafs, í Bandaríkjunum, en á grundvelli þeirra hafa bandarísk samkeppnisyfirvöld heimild til að banna eða breyta háttsemi fyrirtækja jafnvel þó að ekki sé brotið gegn bannreglum bandarískra samkeppnislaga.

Ég vil geta þess að ég tel að sú breyting á frumvarpinu sem samþykkt var eftir 2. umr. málsins þar sem kveðið er sterkar að orði um skilyrði fyrir inngripi Samkeppniseftirlitsins sé afar mikilvæg, en þar er kveðið á um að forsenda aðgerða eftirlitsins sé aðstæður eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða hefur skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns. Þetta felur í sér ríka rannsóknarskyldu og sönnunarbyrði á hendur eftirlitinu sem er mikilvæg forsenda þess að ákvæðinu sé ekki beitt með ómálefnalegum hætti. Sérstaklega árétta ég að breytingartillagan tekur mið af 72. gr. stjórnarskrárinnar um eignarréttinn sem kveður á um að almannaþörf sé forsenda inngrips í eignarréttinn. Þessi breytingartillaga er í samræmi við tillögur Félags atvinnurekenda sem fram kom í umsögn þess félags. Það félag og Neytendasamtökin hafa lýst yfir miklum stuðningi við frumvarpið og telja að með því sé stigið mikilvægt skref í átt að bættri samkeppnislöggjöf hér á landi.

Virðulegi forseti. Hrun fjármálamarkaðarins hefur opnað augu okkar allra fyrir miklum brotalömum í íslensku atvinnu- og viðskiptalífi þar sem ljóst er að skortur á virku eftirliti og veikir lagarammar hafa valdið íslenskum almenningi miklum skaða. Í kreppuástandi er enn mikilvægara en ella að huga að vel að samkeppnissjónarmiðum því að freistingin til að líta fram hjá skaðlegum áhrifum fákeppni kann að vera óvenjusterk við þær aðstæður. Lokatakmarkið með allri samkeppni er hins vegar bætt þjónusta og lægra vöruverð til almennings í landinu og það er ekki síst á þeim forsendum sem þetta frumvarp er reist.

Ég tel það skyldu okkar, þingmanna á Alþingi, að stíga skref sem efla og styrkja samkeppni í atvinnulífinu því að fátt þjónar betur langtímahagsmunum íslensks almennings.