139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður sé kominn út á mjög hálan ís þegar hann fer að lýsa norsku og bresku samkeppnislögunum og uppbrotsheimildum þar sem einhverju fordæmi eða sambærilegu ákvæði við það sem hér er til umfjöllunar. Það er fyrir löngu búið að blása á það í meðförum nefndarinnar og í meðförum málsins að ákvæði norskra og breskra samkeppnislaga séu sambærileg því ákvæði sem lagt er til að lögfest verði hér, en allt um það.

Í ljósi þess að okkar færustu sérfræðingar á sviði samkeppnisréttar hafa haft uppi efasemdir um að ákvæði frumvarpsins brjóti í fyrsta lagi í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar, í öðru lagi að það sé óskýrt og matskennt, í þriðja lagi að það feli í sér ólögmætt framsal á valdi til Samkeppniseftirlitsins og í fjórða lagi að það sé ekki til bóta gagnvart þeirri löggjöf sem nú gildir á sviði samkeppnismála, þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki, svo notað sé orðalag forseta Íslands frá því um helgina, manndóm, getu og burði til að viðurkenna að það hljóta að renna á hann tvær grímur, þegar fram koma svo alvarlegar athugasemdir frá okkar færustu sérfræðingum á þessu réttarsviði, hvort hann sé enn jafnsannfærður um ágæti málsins. Ég hefði haldið í ljósi þeirrar umfjöllunar sem átt hefur sér stað í þinginu, vandaða og faglega meðferð mála, að hv. þingmaður ætti kannski að hugsa sig um áður en hann samþykkir frumvarp eins og þetta þegar fram hafa komið svo alvarlegar athugasemdir.