139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

þjóðaratkvæðagreiðslur -- lánshæfismat ríkisins -- bætt stjórnsýsla o.fl.

[14:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú ætla ég aðeins að blanda mér í umræðuna um þjóðaratkvæðagreiðslur. Svo skemmtilega vildi til að þegar meiri hluti þingsins var búinn að samþykkja lög um Icesave fór forseti með það fram að hann synjaði þeim staðfestingar og sendi málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Með þeim gjörningi varð sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem fram undan er bindandi fyrir stjórnvöld. Hefði Alþingi hins vegar samþykkt hér aðra af þeim tveimur breytingartillögum sem lágu fyrir þinginu undir umræðunum sjálfum og í 3. umr. hefði sú þjóðaratkvæðagreiðsla ekki verið bindandi fyrir stjórnvöld. Í því liggur munurinn. Einungis þær þjóðaratkvæðagreiðslur sem kveðið er á um í stjórnarskrá eru bindandi að lögum og minni ég enn og aftur á það að sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem á að fara fram um ESB-samninginn er ekki bindandi fyrir stjórnvöld vegna þess að það vantar ákvæði í stjórnarskrána.

Það sýnir okkur að hér þarf að flýta vinnu við gerð endurskoðunar á stjórnarskránni og hef ég beint því til innanríkisráðherra hvort ekki sé rétt að sú sjö manna nefnd sem var kosin til að undirbúa þjóðfund og stjórnlagaþing skili tafarlaust til Alþingis þeim drögum sem nú þegar liggja fyrir og þeirri úrlausn sem kom úr þúsund manna þjóðfundi auk annarra gagna sem nefndin átti að afla fyrir stjórnlagaþing þannig að alþingismenn sjálfir geti farið að leggja drög að nýrri stjórnarskrá.

Eins og við vitum er stjórnmálaástand hér á landi mjög óstöðugt og það er aldrei að vita hvenær boðað verður til kosninga. Ef boðað verður til kosninga skulu þær fara fram sex vikum eftir að þingrof er boðað. Tíminn er naumur, frú forseti, og ég hvet ríkisstjórnina til að skoða þennan möguleika því að auðvitað er þetta langfarsælasta lausnin. Við megum ekki (Forseti hringir.) gleyma því að Alþingi sjálft hefur alltaf lokaákvörðunarréttinn um það hvernig ný stjórnarskrá lítur út.