139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[14:36]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Allar þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu á samkeppnislögunum eru íþyngjandi fyrir fyrirtækin í landinu. Lengst gengur sú tillaga að heimila Samkeppniseftirlitinu að brjóta upp fyrirtæki í landinu án þess að þau hafi gerst brotleg við samkeppnislög, önnur lög eða yfir höfuð gert nokkurn skapaðan hlut af sér. Færustu sérfræðingar landsins á sviði samkeppnisréttar hafa við meðferð málsins gefið þessu frumvarpi þá einkunn að það séu verulegar líkur á því að ákvæði þess brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrár, þar sé um að ræða óheimilt framsal valds til Samkeppniseftirlitsins, uppbrotsheimildin sé matskennd, óljós og óskýr og frumvarpið ekki til bóta. Þegar (Forseti hringir.) frumvarp eins og þetta hefur fengið slíka falleinkunn hljóta alþingismenn að hafa manndóm og burði til að sjá að þetta frumvarp (Forseti hringir.) verður að fella þannig að þingmenn Sjálfstæðisflokksins munu segja nei í þessari atkvæðagreiðslu.